sjávarútvegsmál.
Frú forseti. Ég vil fyrst þakka hv. málshefjanda fyrir að opna á þessa umræðu hér og ráðherra sömuleiðis fyrir þátttöku í henni. Það var tiltölulega mikil hryggðarmynd, að mér þótti, sem var dregin upp af hv. þm. Ingu Sæland hér áðan varðandi byggðakvótann og með hvaða hætti hann er hanteraður heilt yfir. Ég held að það sé nauðsynlegt að við skoðum það með opnum augum hvort ekki sé hægt að ná betri árangri með sanngjarnari og gegnsærri hætti hvað ráðstöfun 5,3% pottsins varðar. Í þessum tillögum sem nú liggja fyrir í þessu milliuppleggi nefndar hæstv. ráðherra þá er ein tillaga sem mig langar sérstaklega að nefna sem snýr að því að innan úr þessum 5,3% potti verði afnumdar svokallaðar skelbætur. Skelbætur er hugtak sem kannski ekki margir þekkja. En þetta nær aftur til ársins 2003, ef ég man rétt, þegar skelin hrynur í Breiðafirði vegna sýkingar sem þá kom upp. Síðan hafa verið rannsóknaveiðar um langa hríð sem hafa því miður ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir. En upphafið að þessu er það að 1984, hefur það væntanlega verið, voru þau fyrirtæki sem stunduðu skelveiðar þvinguð, raunverulega þvinguð, til að gefa eftir 35% af því sem í dag væru kallað þorskígildisréttindi þeirra, til að fá réttindin í skelinni. Það dytti engum til hugar að vinna mál með þeim hætti í dag. Í þessu samhengi, þó að þetta sé ekki eitt af atriðunum sem hv. þm. Inga Sæland nefndi, er nauðsynlegt að halda þessu til haga og að við skoðum 5,3% pottinn heilt yfir, út frá öllu sviðinu og reynum að forma mál þannig að hann geri sem mest gagn og sé um leið sanngjarn.