sjávarútvegsmál.
Frú forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. matvælaráðherra fyrir að hefja vinnuna sem nefnist Auðlindin okkar og fyrir að hafa skipað starfshópa til að finna ásættanlegar lausnir á einu stærsta deilumáli í íslensku þjóðfélagi um áratugaskeið. Yfirráð fárra yfir fiskveiðiauðlindinni færir útgerðarrisum mikil völd eins og alþjóð veit og hefur deilt um. Vaxandi umsvif útgerðarrisa í atvinnulífinu er áhyggjuefni út af fákeppni og áhrifum þeirra á ákvarðanir í stjórnkerfinu og stjórnmálamenn, sem geta auðveldlega unnið gegn almannahag — að ekki sé talað um hótanir gegn fjölmiðlum og fjölmiðlafólki sem vega að lýðræðislegri umræðu.
Finna þarf leiðir sem vinna gegn því að kvóti safnist á fárra hendur og tryggja jafnræði milli þeirra sem treysta á fiskmarkaði og hinna sem stunda bæði veiðar og vinnslu. Þetta er fíllinn í herberginu og nauðsynlegt að tekið sé á þessu. Breytingunum til að taka á þessu ójafnvægi má ekki ýta á undan sér þar til tíminn rennur út og ekki mega heldur koma fram útvatnaðar tillögur.
Málshefjandi kom inn á vigtun afla. Við verðum í þeim efnum að efla Fiskistofu sem á að hafa eftirlit með nýtingu og meðferð auðlindarinnar en hefur því miður verið undirfjármögnuð árum saman. Ekki nóg með það, þá eru heimildir Fiskistofu ekki nægar og lög óskýr. Það skortir, frú forseti, jafnræði á milli þeirra sem treysta á fiskmarkaði til að kaupa fisk til vinnslu og hinna sem stunda bæði veiðar og vinnslu, og sjómenn sjá erlendar útgerðir selja aflann sinn á hærra verði en þær íslensku.
Við vitum að svindl hefur verið upplýst þegar ísprósenta í körum er áætluð við hafnarvog og ósamræmi er á milli endurvigtunar afla í vinnslustöðvum og vigtunar á hafnarvog. Þetta er eitt af stóru málunum í sjávarútveginum sem þarf að taka á í vinnu starfshópanna. Ég vona að þeir nái að taka líka á stóru málunum í sjávarútvegi og út úr vinnunni komi vel útfærðar tillögur til þingsins, tillögur sem breyta raunverulega valdaójafnvæginu í sjávarútveginum og tryggja meira jafnræði fyrir alla.