Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

sjávarútvegsmál.

[16:17]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegurinn er einn af lykilatvinnuvegum þjóðarinnar en jafnframt hefur lengi verið mikið ósætti meðal almennings hvað það varðar hvernig við rekum hann og hversu ógagnsætt eignarhaldið er. Ítrekað hefur verið kallað eftir aðgerðum eins og að fá allan afla á markað og að gefa handfæraveiðar frjálsar. Eftir því hafa margir aðilar, sérstaklega í minni byggðum, kallað. Þannig myndum við stuðla að því að fleiri fengju tækifæri til að stunda sjávarútveg og strandveiðar eru líklegri til að skapa afleidd störf í byggðum en togveiðar. Þannig yrðu samlegðaráhrifin mun meiri og líklegri til að verða gagnleg. Við þurfum líka að gæta þess að aðgerðir sem gripið er til nái til sem flestra en ekki örlítils hóps eins og blasir við þegar við skoðum gríðarlega samþjöppun eignarhalds í sjávarútvegi. Það eru líka gríðarlega mikil tækifæri sem felast í rafvæðingu hafna og því fylgja mikil tækifæri að endurnýja flotann á umhverfisvænni hátt. Því myndi líka fylgja mun meiri sjálfbærni með því að minnka þörfina fyrir innflutt eldsneyti sem gæti á sama tíma orðið mikilvægt skref í fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er líka mjög mikilvægt að við gleymum ekki að huga að eftirliti og sjáum til þess að engin þeirra aðgerða sem gripið verður til gangi með ósjálfbærum hætti á sjávarauðlindina til framtíðar.

Ég hvet ráðherra til að hafa þetta í huga við útfærslu á aðgerðum í sjávarútvegi og stuðla þannig að betri og víðtækari sátt um auðlindina ásamt því að styrkja búsetu í sjávarbyggðum með fjölbreytni að leiðarljósi. Ég hvet ráðherra til að flýta rafvæðingu hafna. Og: Allan afla á markað og gefa handfæraveiðar frjálsar.