sjávarútvegsmál.
Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Ingu Sæland, og hæstv. matvælaráðherra fyrir umræðuna. Ég ætla að ræða hér um strandveiðar og mikilvægi þeirra. Strandveiðar voru heimilaðar með lögum árið 2009 og því er komandi sumar það 15. í röðinni. Landinu var skipt upp í fjögur löndunarsvæði og var hverju úthlutað hluta af heildarheimildinni. Á þessum árum frá því að strandveiðar hófust hefur veiðin og útfærslan breyst. Veiðiheimildir hafa farið úr 3.955 tonnum, sem var fyrst, og mest fór veiðin í tæp 11.200 tonn árið 2021. Heimildin var svo lækkuð á síðasta sumri og fór í rúm 10.000 tonn vegna ráðgjafar frá Hafró. Við getum því sagt að kerfið hafi fest sig í sessi og uppfyllt markmið sín. Breytingar voru gerðar á umgjörðinni árið 2019, heildaraflamark var fyrir landið allt og var einn pottur fyrir landið í heild og öllum tryggðir 12 dagar á meðan potturinn dygði. Skýrsla Byggðastofnunar, sem gerði úttekt árið 2020 eftir þessar breytingar, leiddi í ljós að yfirgnæfandi meiri hluti strandveiðimanna var almennt ánægður með þetta nýja kerfi. Vestlendingar og Vestfirðingar voru ánægðastir með breytingarnar sem gerðar voru á strandveiðikerfinu en Norðlendingar og Austfirðingar síður þótt meiri hluti þeirra teldi breytingar á kerfinu til bóta.
Virðulegi forseti. Nú má finna frumvarp hæstv. matvælaráðherra í samráðsgátt þar sem bakka á með hluta af breytingunum og skipta landinu aftur upp í fjögur svæði. Þetta tel ég vera afturför. Þetta veldur í raun meiri misskiptingu milli landsvæða en núverandi kerfi býður upp á. Það verður erfitt að finna út hvaða magn á að fara á hvert svæði. Í gamla kerfinu gat mismunun á milli svæða verið sex veiðidagar á einu svæði en upp í 20 veiðidagar á öðru. Og kapphlaup á miðin hefst með ófyrirséðum afleiðingum. Við þurfum að hugsa þetta betur áður en við tökum skrefið.