Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

sjávarútvegsmál.

[16:21]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Hér hafa átt sér stað fínar umræður og það er fagnaðarefni að athyglinni sé beint sérstaklega að strandveiðum og mikilvægi þeirra. Þar eru að störfum smáir sjálfstæðir atvinnurekendur í afar erfiðum geira. Stefna okkar í Viðreisn samræmist hagsmunum þeirra. Áherslur okkar eru til þess fallnar að styðja við nýliðun í sjávarútvegi. Hlutverk strandveiðikerfisins er einmitt að hluta að byggja upp nýliðun og opna greinina fyrir fleirum en þeim sem eiga kvóta. Hér skipta líka máli hugmyndir Viðreisnar um uppboð 5% aflahlutdeilda til 20 ára á opnum markaði, sú lausn frelsar greinina undan því að stjórnvöld ákveði einn daginn að hækka veiðigjöld verulega og hún frelsar þjóðina undan því að stjórnmálamenn ákveði einn daginn fyrirvaralaust að lækka veiðigjöld. Almennir markaðir þar sem verðmyndun ræðst af framboði og eftirspurn blómstra. Það sama gildir ekki þegar verð eru ákveðin af nefnd embættismanna eða með lagasetningu. Slíkar ráðstafanir takmarka verðmætasköpun og hygla yfirleitt fáum á kostnað heildarinnar. Hvers vegna ætti aðgangur að fiskveiðiauðlindinni að vera verðlagður með þeim hætti? Hvers vegna ætti þjóðin ekki að njóta ágóða af auðlindinni sinni eftir lögmálum framboðs og eftirspurnar? Það er mikilvægt að ná fram sanngjörnu auðlindagjaldi sem byggist á markaðsverði og tryggir eignarhald þjóðarinnar yfir sjávarauðlindinni í stjórnarskrá með því að tímabinda samninga. Þetta er risastórt hagsmunamál sjávarbyggða. Við sjáum fyrir okkur að þessar tekjur renni til þeirra byggðarlaga sem hafa farið halloka í núverandi kerfi, að þau byggðarlög fái aukna tekjustofna til að standa undir nauðsynlegri og eðlilegri þjónustu við íbúa sína.