sjávarútvegsmál.
Frú forseti. Mér komu til hugar orð Gordons Gekkos í myndinni Wall Street eftir Oliver Stone frá 1987 hér áðan þegar ég var að velta fyrir mér mikilvægi arðsemi. Gordon Gekko talaði um mikilvægi græðginnar og að hún væri góð en arðsemin er ekki bara góð, hún er algjörlega nauðsynleg í þessu umhverfi. Við megum ekki gleyma því að sjávarútvegurinn var rekinn mannsöldrum saman með tapi. Það sem hefur gerst á undanförnum áratugum, eftir innleiðingu aflamarkskerfisins, er að í geiranum hefur farið að myndast hagnaður, sem betur fer. Það er enginn rekstur sem stendur undir sér og lifir og blómstrar til lengri tíma án þess að hann skili arðsemi og hagnaði. Það er alveg nauðsynlegt til að sjávarútvegurinn geti áfram fjárfest og stutt við þróun hinna ýmsu tengdu og mögulega við fyrstu sýn ótengdu þátta að þar séu rekstrarskilyrði einnig góð. Ég hef áhyggjur af því að innan 5,3% pottsins og þeirra lausna sem þar eru aðgengilegar sé kerfið að miklu leyti þannig formað að of lítið svigrúm fyrir arðsemi sé að myndast þannig að þeir sem þar starfa, í hvaða þætti þess sem kann að vera, hafi svigrúm til að byggja sig upp, festa sér varanlegar aflaheimildir og þar fram eftir götunum. Það gerist best með því að byggja kerfið þannig upp að svigrúm sé fyrir arðsemi. Þeir sem í þessu starfa verða að hafa borð fyrir báru rekstrarlega til þess að vera ekki alltaf bara eins og hamstur á hjólinu. Ég held að þetta verði að vera algjört lykilatriði í þeirri endurskoðun sem nú er að eiga sér stað og bara að við höfum alltaf í huga að það sé gert ráð fyrir arðsemi og helst góðri þannig að þeir sem starfa innan geirans geti byggt sig upp. Annars er þetta eilífðarslagur sem engu skilar. Höfum það í huga.