Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

sjávarútvegsmál.

[16:25]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. matvælaráðherra og öllum hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Hér hefur margt verið sagt, gagnlegt og gott. Það er eitt sem mig langar að benda á: Þegar hæstv. ráðherra talar um tölulegar staðreyndir og segir að annað eins hafi aldrei nokkurn tímann verið gert í sambandi við strandveiðarnar en í hennar tíð þá vil ég minna hæstv. ráðherra á að hennar fyrsta embættisverk í desember 2021 var að skera af þorskveiðikvótanum 1.500 tonn. Það olli náttúrlega mikilli ólgu og allt ætlaði af göflunum að ganga. Þá bætir ráðherrann ráð sitt að einhverju leyti og bætir við 1.074 tonnum. Út af standa enn þá 426 tonn. Þetta eru tölulegar staðreyndir, hæstv. ráðherra. Það er engum blöðum um það að fletta.

Það er ofboðslega dapurt að heyra að við höfum orðið að setja bremsu og hætta að veiða akkúrat þarna vegna þess að potturinn hafi verið búinn. Ég vil ítreka það hér og nú að aldrei nokkurn tíma munu nokkrir einustu líffræðingar halda því fram að krókaveiði og strandveiði og veiðar á smábátum í kringum landið eigi eftir að ógna lífríkinu í sjónum og eigi eftir að koma niður á aflamagni í sjónum. Aldrei nokkurn tíma. Það skýtur skökku við að við skulum enn vera á þeim stað að vernda arðrán stórútgerðarinnar sem fer með allt of mikið af verðmætunum okkar og gjaldeyrinum okkar úr landi í stað þess að tryggja og byggja undir sjávarplássin okkar viðkvæmu hringinn í kringum landið sem nánast er að blæða út.

Ég minni enn og aftur á Verbúðina, þann góða þátt sem var söguleg staðreynd og frábær heimildarsería, og skilst mér að verið sé að búa til nýja. Ég skora á hæstv. sjávarútvegsráðherra að taka í fangið stefnu síns góða flokks sem er nákvæmlega í þá átt að tryggja sjávarplássunum hringinn í kringum landið lífsviðurværi. Ég bara skora á hana að vera ekki næsti aðalleikari í nýrri Verbúð.