Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fólk í leit að vernd virðist hafa tapað sínum síðasta málsvara meðal ríkisstjórnarflokkanna. Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum en einmitt núna. Það geisar stríð í Evrópu. Milljónir, aðallega konur og börn, hafa flúið sundursprengdar borgir Úkraínu og einhver þeirra ratað alla leið hingað. Þá liggur fyrir að þær hörmungar sem fylgdu jarðskjálftum í Tyrklandi og Sýrlandi fyrr í vikunni hafa gert milljónir íbúa sem þó lifðu af heimilislausar. Ríkisstjórnin bregst við þessum verkefnum með því að brjóta á grundvallarmannréttindum fólks á flótta og það mun Samfylkingin aldrei styðja. Staðreyndin er að breytingar þessar munu ekki leiða til skilvirkni í málaflokknum. Breytingarnar munu heldur ekki fækka fólki í heiminum í sárri neyð sem flýr land sitt vegna stríðs, vegna náttúruhamfara, vegna vargaldar eða ofsókna. Þær munu hins vegar leiða til aukins vanda í íslensku samfélagi, hjá heilbrigðiskerfinu, velferðarkerfi sveitarfélaga og réttarvörslukerfinu.