Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:19]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar aðeins að koma inn á þetta hvenær stjórnvöld meta að einstaklingur hafi sjálfur valdið töf á máli. Það hefur t.d. gerst að það hefur verið metið sem töf af völdum umsækjanda þegar lögreglu hefur ekki tekist í heila 12 mánuði að ljúka einföldu vegabréfamáli. En við skulum muna eftir því að það er óheimilt samkvæmt alþjóðalögum og íslenskum að saksækja einstaklinga sem leita hér verndar fyrir að vera með röng eða fölsuð skilríki í fórum sínum við komuna, einfaldlega vegna þess að eðli málsins samkvæmt þá getur fólk á flótta oft ekki orðið sér úti um ferðaskilríki. Það hefur samt verið notað gegn einstaklingi og hann því ekki átt rétt á efnismeðferð vegna þess að löggan er svo vanfjármögnuð, í boði hæstv. dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokks, að þau hafi ekki getað klárað einfalt skilríkjamál á 12 mánuðum. Það eru svona tilvik, herra forseti, sem við erum að tala um, þar sem saklausu fólki er refsað fyrir vanfjármagnaða innviði.