Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

sóttvarnalög.

529. mál
[15:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það var auðvitað þannig í gegnum tímabil heimsfaraldursins að stjórnvöld virtust upptekin við það á löngum köflum að skjóta lagastoð undir þegar framkvæmdar aðgerðir, sem er auðvitað ekki beint til fyrirmyndar. Auðvitað þarf á köflum að bregðast við en það má færa fyrir því rök að á köflum hafi verið gengið heldur hratt um gleðinnar dyr hvað meðferð þeirra heimilda varðar sem stjórnvöld höfðu.

Það breytir því ekki að — eins og segir í sjötta kafla greinargerðar um mat á áhrifum, með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið, verði það að lögum, hafi áhrif á tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs og/eða eignastöðu.“

Það má eflaust til sanns vegar færa, sem er ekki alltaf raunin þegar kemur að 6. lið greinargerðar stjórnarfrumvarpa. Við sjáum bara núna hvaða gríðarlegu áhrif allar þær aðgerðir sem gripið var til í gegnum Covid-faraldurinn höfðu á fjárhagsstöðu bæði ríkissjóðs og einstaklinga, fyrirtækja, sveitarfélaga, þannig að við verðum auðvitað að horfa á þetta mál í stærri mynd.

En þrátt fyrir svar hæstv. ráðherra áðan get ég ekki annað en ítrekað spurninguna hvort það sé ekki rétt að bíða þar til einhverjar niðurstöður hafa fengist í þeim úttektum sem hæstv. ráðherra segir að verið sé að vinna, þannig að það getur ekki frestað málinu um langan tíma. En eitt og sér þykir mér ekki gott að við séum að fara í svona grundvallarbreytingar á svona mikilvægri en á sama tíma mögulega íþyngjandi löggjöf, svona strax eftir að því ástandi sem hér varði hefur linnt og sömuleiðis áður en neinar meiri háttar niðurstöður hafa fengist varðandi það hver raunveruleg heildaráhrif beitingar núgildandi sóttvarnalaga voru.