Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

sóttvarnalög.

529. mál
[15:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þm. Bergþórs Ólasonar og tel að það sé mikilvægt að taka einmitt þessa hlið hér upp við framlagningu þessa frumvarps. Þá kann stóra spurningin að vera: Af hverju erum við að leggja þetta frumvarp fram? Eigum við ekki að bíða og horfa til þeirra áhrifa og þeirra afleiðinga sem við erum að horfa á í kjölfarið á faraldrinum?

Hv. þingmaður kom inn á það einmitt þegar við förum í svona aðgerðir til að vernda líf og heilsu og göngum nærri stjórnarskrárvörðum mannréttindum eins og með samkomutakmörkunum sem höfðu gífurleg áhrif hér á ýmiss konar atvinnustarfsemi og munu hafa áhrif hér, þá og inn í óræða framtíð, á líf og heilsu. Við settum af stað hópa hér, lærðum af hruninu, til að kanna það hvaða áhrif þetta hefði á börn og unglinga til að mynda, þegar röskun varð á skólastarfi sem við reyndum eins og við gátum að halda gangandi. Við settum inn mikla fjármuni til að styðja við fyrirtæki sem raunverulega stöðvuðust alveg, af því að heimurinn hætti að ferðast, í ferðaþjónustunni sem er núna aftur komin á ferðina og þarf að kljást við þá stöðu.

Ég er þeirrar meiningar, svo ég svari því bara hreint út, að það er alltaf krafa um að við fylgjum því að hafa skýra lagastoð fyrir þeim ákvörðunum sem við stöndum frammi fyrir að taka hverju sinni. Þannig að ef við spyrjum af hverju þetta frumvarp og hvort það megi ekki bíða, þá tel ég það óþarfa. En það útilokar ekki allt það sem hv. þingmaður kemur inn á að við þurfum að skoða og meta inn í framtíðina.

Ég vil bara segja að lokum, virðulegi forseti, af því að þegar við stóðum í þessum faraldri og vorum að taka allar þessar ákvarðanir þá gerðum við breytingar (Forseti hringir.) til þess að við gætum hér haft betri og skýrari, bara eins og stjórnskipunin okkar er, (Forseti hringir.) lagastoð fyrir þeim ákvörðunum sem við mátum að þyrfti að taka á þessum tíma til að vernda líf og heilsu, (Forseti hringir.) sem eru grundvallarhagsmunir þegar kemur að svona ákvörðunum.