Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

sóttvarnalög.

529. mál
[15:51]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma inn á þingið með þetta frumvarp í annað sinn enda um að ræða mikilvægt mál. Ég held að það sé óþarfi að rifja upp umræðuna þegar allir voru óvænt í þeirri stöðu að hin lagalega umgjörð hefði getað verið þéttari gagnvart þeim áskorunum sem við stóðum frammi fyrir, þ.e. að vinna bug á heimsfaraldri. Umgjörðin hefði getað verið betri og þá kannski ekki síst þegar um er að ræða takmörkun á frelsi. Hvort sem um er að ræða athafnafrelsi eða annað frelsi er það algerlega skýlaus réttur allra í frjálsu lýðræðissamfélagi að rétturinn til allra slíkra inngripa sé skýr. Ég fagna því í þessu frumvarpi. Ég vil fá að segja strax að mér finnst frumvarpið vissulega vera til bóta, það er í rétta átt.

Strax í upphafi faraldursins var sleginn sá tónn að pestir væru illviðráðanlegar og best væri að nýta kraftana í að heilbrigðiskerfið réði við verkefnið. Ástæðan er einföld; ef heilbrigðiskerfið brestur er ekki hægt að beita lífsbjargandi úrræðum sem nútímaheilbrigðiskerfi færa okkur. Þetta er og var gott og skýrt markmið. En forseti, síðan var það fært nokkrum sinnum til; veirufrítt land var takmarkið, svo að hemja útbreiðsluna þar til búið væri að bólusetja og síðan að verjast innrásum ýmissa afbrigða. En það er ekki bara veira sem getur valdið álagi heldur allt mögulegt annað. Skorður á líf fólks mega ekki sjálfkrafa verða svarið. Ef bráðamóttakan ræður ekki við rútuslys getur niðurstaðan ekki orðið sú að loka vegum heldur að undirbúa spítalann betur. Það þurfti því formlegt samtal um það hvað væri undir svo að við getum sett stefnuna sameiginlega, ekki síst með það fyrir augum að veirur og áföll verða alltaf hluti af tilveru okkar.

Forseti. Þingið og lýðræðislega kjörnir fulltrúar ættu að hafa meira um þetta allt að segja. Það eru því hreint út sagt vonbrigði að frumvarpið sem um ræðir skuli ekki leggja til aukna aðkomu þingsins þar sem í raun er bara mælt fyrir upplýsingaskyldu, að Alþingi skuli kynnt sóttvarnaráðstöfun um leið og ákvörðun hefur verið tekin um hana, en í slíku fyrirkomulagi hefur Alþingi ekki aðkomu að ákvarðanatökunni heldur einungis upplýsingunum um hana. Hér er mikilvægt að gera greinarmun á því að ég er að sjálfsögðu ekki að mæla fyrir því að ráðherra geti ekki tekið skyndiákvarðanir þegar brýna nauðsyn ber til, að sjálfsögðu verður slíkur varnagli að vera til staðar. En það eru mikil vonbrigði að ekkert sé að finna um aðkomu þingsins að ákvarðanatöku og að mínu mati er það ekki nógu mikil virðing fyrir því hvar ábyrgðin gagnvart fólkinu í landinu liggur þegar allt kemur til alls, sem er og á að vera hjá lýðræðislega kjörnum fulltrúum þessa sama fólks. Löndin í kringum okkur hafa mörg hver stigið frekari skref í þá átt að láta ábyrgðina liggja þar og ég hefði viljað sjá þannig nálgun.

Það er auðvitað umhugsunarefni hversu auðvelt það var, of auðvelt að mínu mati, að stilla vísindum og stjórnmálum, eða vísindafólki og stjórnmálafólki, upp sem andstæðum. Þarna er ég að sjálfsögðu ekki að gera lítið úr vísindafólki, alls ekki. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að vísindafólk ber ekki ábyrgð gagnvart fólkinu sínu eins og stjórnmálamenn gera. Mig langar að nefna þetta því að fyrir mér er pólitíska ábyrgðin mikilvægasta grundvallarreglan og einn mikilvægasti öryggisventill frjáls lýðræðissamfélags. Við ættum í stjórnmálum almennt að láta stjórnmálamennina og ráðamenn á hverjum tíma bera ábyrgðina sem þeim ber en auðvitað á það að vera byggt á allra bestu upplýsingum okkar allra besta vísindafólks.

Forseti. Undir eru ekki bara veirur heldur heilt samfélag þar sem skaðinn getur verið langvinnur og ósýnilegur. Menntun barna er til að mynda mannréttindi þeirra og það er mikið á sig leggjandi til að hægt sé að halda úti sem eðlilegustu samfélagi sem ekki fer fram bak við luktar dyr. Í þannig stöðu er nauðsynlegt að horfa yfirvegað yfir sviðið og meta áhrif og afleiðingar bæði faraldursins og aðgerðanna og taka ákvarðanir með það að leiðarljósi. Við munum t.d. eftir stöðunni undir lok faraldursins þegar eitt afbrigði var svo smitandi að fyrirtæki voru farin að loka, ekki vegna veikinda heldur sóttkvíar, vegna aðgerða. Mér þykir einsýnt að það þarf líka að horfa á slíkar samfélagslegar hömlur. Það verður að taka ákvarðanir sameiginlega út frá staðreyndum eins hratt og heildstætt og hægt er og gæta þess að aðgerðirnar valdi ekki meiri sársauka en það sem þær eru að vernda gegn. Það má því velta því upp hvenær sjúkdómur hefur þær afleiðingar að mikilvæg störf, innviðir eða starfsemi heilbrigðiskerfisins raskist. Það er í raun munur á því hvort framangreind starfsemi raskast vegna sjúkdómsins sjálfs, að sjúkdómurinn sjálfur hafi það miklar afleiðingar, að fólk verði það mikið veikt að það geti ekki sinnt störfum sínum, eða hvort röskunin sé komin til út af sóttvarnaráðstöfunum sem stjórnvöld sjálf setja. Ég vil því staldra sérstaklega við hvernig samfélagslega hættulegur sjúkdómur er skilgreindur í frumvarpinu; sem er „alvarlegur sjúkdómur sem veldur eða getur valdið alvarlegri röskun á mikilvægum störfum og innviðum samfélagsins og/eða sem leitt getur til verulega aukins álags á heilbrigðiskerfið verði hann útbreiddur í samfélaginu.“

Ég leyfi mér, forseti, að staldra við orðanna hljóðan í texta frumvarpsins, „eða sem leitt getur til verulega aukins álags á heilbrigðiskerfið verði hann útbreiddur í samfélaginu“, og minni vinsamlega á að um síðustu jól var verulega aukið álag á heilbrigðiskerfið vegna flensu. Þetta verður að vera skýrt þó að í greinargerð megi skilja skýringar á þann veg að lögð sé til sambærileg skilgreining og er til að mynda notuð í Danmörku. Þannig er um að ræða alvarlegustu smitsjúkdóma sem geta herjað á samfélagið. Er þá sérstaklega átt við þá sjúkdóma sem hafa þannig smittíðni að þeir geti leitt til alvarlegrar röskunar á mikilvægum störfum, innviðum samfélagsins eða aukins álags á heilbrigðiskerfið. Skýringar frumvarpsins gefa vissulega vísbendingar um að þar sé verið að horfa á þessa skilgreiningu þrengra en texti frumvarpsins sjálfs ber með sér. Er ástæða til að beina því til hv. velferðarnefndar að passa upp á skýrleika þessarar mikilvægu skilgreiningar.

Hins vegar er vert að minna á í þessu samhengi að í 16. gr. frumvarpsins er kveðið á um jafnræði og meðalhóf sem og um þau sjónarmiða sem líta skal til við ákvörðun um sóttvarnaráðstafanir. Þar vantar, forseti, sárlega að vísað sé skýrt til efnahagslegra og félagslegra hagsmuna sem verða að fá að vera með í forsendum ákvarðanatöku í samfélaginu. Í því samhengi vek ég einnig athygli á hvernig eigi, samkvæmt frumvarpinu, að skipa í farsóttanefnd þar sem eingöngu heilbrigðisstarfsfólk á að hafa þar sæti fyrir utan einn aðila sem á að hafa þekkingu á almannavörnum en enginn er þar til að meta félagslegar og efnahagslegar afleiðingar.

Annað atriði sem mig langar að nefna varðar 24. gr., um málsmeðferð hjá dómstólunum. Þar kemur fram að dómari skuli sjálfur sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en hann kveður upp úrskurð og skuli sjálfur afla sönnunargagna sem hann telur þörf á. Í frumvarpinu kemur jafnframt fram að farið sé eftir lögum um meðferð einkamála og eftir atvikum sakamálalögum í málum sem varða sóttvarnalög nema kveðið sé á um annað í lögum og er 24. gr. að langmestu leyti samhljóða 15. gr. núverandi laga. Mér þykir eðlilegt að velta upp hvort óeðlilegt sé að það sé hlutverk dómara að rannsaka málið og kveða svo sjálfur upp úrskurð í því. Í raun er um að ræða þetta rannsóknarréttarfar sem hefur tíðkast hér síðan það var aflagt fyrir svolitlu síðan, þ.e. árið 1995. Mér þætti rétt að velferðarnefnd myndi skoða hvort réttara væri að málsmeðferð yrði sambærileg og í einkamála- og sakamálalögum, að sóknaraðili eða ákærandi afli sönnunargagna en dómari geti óskað eftir því að hann afli tiltekinna gagna um atvik máls sem þörf er á til að upplýsa málið eins og gengur. En hins vegar væri þessi aðgreining eins og eðlilegt er eins og er í einkamála- og sakamálalögum og ættu því fordæmi að vera alveg skýr. Einnig er tekið fram í 24. gr. að þeim sem geta vegna tengsla sinna við varnaraðila veitt nauðsynlegar upplýsingar sé skylt að veita dómara þær. Mögulega er hægt að skilja ákvæðið sem svo að t.d. mökum og fjölskyldumeðlimum varnaraðila sé skylt að bera vitni gegn honum. Bæði í einkamála- og sakamálalögum er vitnum sem eru tengd aðila máls með slíkum hætti ekki skylt að bera vitni. Það væri að mínu mati óeðlilegt að skylda nákomna aðila til að veita aðstoð við rannsókn á máli sem snýr að frelsissviptingu, sérstaklega eins og ég nefndi áðan, vegna þess að við höfum annan hátt á í einkamála- og sakamálalögum og því ætti ákvæðið að vera orðað á þann hátt og ætti að vera í fullu samræmi við almennt réttarfar.

Forseti. Í 39. gr. er mælt fyrir um greiðsluþátttöku sjúklinga samkvæmt lögunum þar sem fram kemur að hún fari samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, þ.e. að kostnaður vegna framkvæmdar laganna greiðist að öllu jöfnu eins og annar sjúkra- og lækniskostnaður. Í ljósi þess að mikið af þeirri heilbrigðisþjónustu sem mælt er fyrir um í lögunum er í senn íþyngjandi og þvinguð fram af stjórnvöldum langar mig að velta upp hvort ekki sé eðlilegt að kostnaður vegna framkvæmda samkvæmt lögunum verði að meginreglu til greiddur af ríkissjóði.

Forseti. Frumvarpið er til bóta og í rétta átt og þó að allir voni að viðlíka staða blasi ekki við okkur og raunin varð í mars 2020 erum við þó alla vega aðeins betur nestuð núna. Í logninu eftir faraldurinn, þegar rykið er sest og við höfum aðeins meira andrými, förum úr óttanum, jafnvel reiðinni, gefst skjól til að ræða mikilvæga hluti og því er mikilvægt að þetta frumvarp hafi verið unnið og lagt fram. Við stóðum okkur ágætlega. Stjórnvöld stóðu sig ágætlega og er það öllum sem komu að þeim aðgerðum, sérstaklega í byrjun faraldursins, til sóma hvernig haldið var utan um íslenska þjóð á skrýtnum tímum. En það verður að mega gagnrýna nokkur atriði og það verður að mega spyrja spurninga. Það eru veigamiklir hlutir undir. Ég hef almennt í lífinu reynt að temja mér það, og ég tala nú ekki um í þeirri stöðu sem ég er í hér í dag, í því starfi sem ég sinni í þessum góða sal, að hugsa allar reglur út frá því hvernig það væri ef vondir menn væru við völd. Ég ætla að biðja hlutaðeigandi hér að taka það alls ekki til sín, því er engan veginn beint að þeim, þvert á móti. Ég hef hins vegar reynt að skoða hvað mér þykir um völd sem reglur veita einhverjum aðilum eða stofnunum út frá því hvernig það væri ef það væri ekki gott fólk sem héldi á því valdi.

Út frá því prinsippi vil ég enda ræðu mína hér á að minna á að það eru talsverðar líkur á því að ef ekki hefðu orðið fjöldamótmæli í Kína nýlega væru Kínverjar enn lokaðir inni á mjög hæpnum forsendum. En þannig eru ákvarðanir oft teknar. Við megum ekki gleyma því að þannig ákvarðanir eru líka teknar af ráðamönnum og þannig ákvarðanir viljum við forðast.

Ég hvet því hv. velferðarnefnd til að hafa þau gleraugu á þegar þau taka þetta ágæta frumvarp, sem er vissulega til bóta, og rýna það enn frekar með allar nýjustu upplýsingar í huga, um vendingar þessa faraldurs sem var svo skrýtinn og óskiljanlegur í byrjun. Nú vitum við meira. Tökum þær upplýsingar og rýnum þær gagnrýnið með frelsi og sanngirni og heildarsamhengi okkur til halds og trausts. Ég ítreka þakkir til ráðherra fyrir að hafa komið fram með þetta frumvarp.