Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

tónlist.

542. mál
[17:15]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til tónlistarlaga. Hér er um gríðarlega mikilvægan áfanga að ræða fyrir tónlistarlífið í landinu en með frumvarpinu er í fyrsta sinn lagt til að sett verði heildarlög um tónlist á Íslandi. Frumvarpið byggir á tillögum starfshóps sem skipaður var á degi íslenskrar tónlistar hinn 1. desember 2020. Hlutverk hópsins var að rýna umhverfi tónlistargeirans á Íslandi, skoða hvernig stuðnings- og sjóðakerfi tónlistar væri best skipulegt, leggja drög að tónlistarstefnu og skilgreina hlutverk og ramma tónlistarmiðstöðvar sem ráðgert var að setja á laggirnar. Frumvarpið tekur einnig mið af drögum að tónlistarstefnu fyrir árin 2023–2030 sem var kláruð samhliða við samningu frumvarpsins sem hér er til kynningar. Með því er lagður heildarrammi fyrir málefni tónlistar til að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á Íslandi og búa þessari mikilvægu og blómstrandi listgrein hagstæð skilyrði svo að hún geti haldið áfram að dafna.

Virðulegur forseti. Við samningu frumvarpsins var litið til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og þar einsettum við okkur að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs og skapa ný og fleiri tæki fyrir íslenskt listafólk. Greitt aðgengi er mikilvægur þáttur þessa því það skiptir miklu máli að við öll getum notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi til að auðga lífið í landinu.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi: Í frumvarpinu er kveðið á um nýja tónlistarmiðstöð sem ætlað er að sinna uppbyggingu og stuðningi við hvers konar tónlistarstarfsemi sem og útflutningsverkefni allra tónlistargreina. Þar að auki mun miðstöðin sinna skráningu, umsýslu og miðlun íslenskra tónverka. Með stofnun tónlistarmiðstöðvar er stigið stórt skref í áttina að því að veita listgreininni aukið vægi og greiða leið íslensks tónlistarfólks innan lands sem utan. Er lögð áhersla á að teikna upp nútímalegt og hvetjandi umhverfi fyrir íslenskt tónlistarlíf. Markmiðið er að miðstöðin verði raunverulegur miðpunktur tónlistargeirans og tengipunktur við stjórnvöld. Mikilvægt er að markmið, hlutverk og skipulag miðstöðvarinnar sé skýrt frá upphafi og endurspegli fjölbreytni tónlistarlífsins.

Tónlistarmiðstöð sinnir þremur kjarnasviðum. Fyrsta kjarnasviðið, Inntón, kemur til með að sinna því hlutverki að annast fræðslu og styðja við tónlistartengd verkefni og uppbyggingu tónlistariðnaðar hér á landi. Kjarnasviðið Útón veitir síðan útflutningsráðgjöf og styður við útflutningsverkefni allra tónlistargreina. Útón byggir á því góða starfi sem Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar hefur sinnt frá árinu 2006, að efla útflutning á íslenskri tónlist og skapa sóknarfæri fyrir íslenska tónlist á erlendum mörkuðum. Loksins verður það hlutverk Tónverks að sjá um skráningu, umsýslu og miðlun íslenskrar tónverka, m.a. með því að halda úti tónaveitu, þ.e. rafrænum nótnagrunni. Tónverk byggir á grunni Íslenskrar tónverkamiðstöðvar sem hefur starfað frá árinu 1968 sem miðstöð sígildrar tónlistar og samtímatónlistar á Íslandi. Miðstöðin hefur hingað til haldið utan um að skrá og kynna íslensk tónverk og gera þau aðgengileg til flutnings. Miðstöðin heldur nú þegar úti tónaveitu sem hefur að geyma 10.000 íslenskt tónverk sem flytjast yfir í nýja nótnaveitu að gefnu leyfi rétthafa. Með sameiningu þessara verkefna undir hatti tónlistarmiðstöðvar er ætlunin að gefa þeim aukinn slagkraft og nýta samlegðaráhrif þeirra. Þá er hinni nýju tónlistarmiðstöð sömuleiðis ætlað að annast umsýslu nýs tónlistarsjóðs.

Virðulegur forseti. Nýr tónlistarsjóður sameinar þrjá sjóði sem fyrir eru á sviði tónlistar og verður lykilhlutverk hans að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í íslenskum tónlistariðnaði. Með tilkomu sjóðsins verður styrkjaumhverfi tónlistar einfaldað til muna og skilvirkni aukin. Sjóðurinn mun taka yfir hlutverk tónlistarsjóðs, hljóðritasjóðs og útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar.

Í frumvarpinu er sömuleiðis að finna ákvæði um sérstakt tónlistarráð sem verður stjórnvöldum og tónlistarmiðstöð til ráðgjafar um málefni tónlistar. Ráðinu er ætlað að vera öflugur samráðsvettvangur milli stjórnvalda, tónlistarmiðstöðvar og tónlistargeirans, enda felst í því mikill styrkur að ólík og fjölbreytt sjónarmið komi fram við stefnumótunarvinnu á sviði tónlistar.

Að lokum er rétt að nefna að gildandi löggjöf um Sinfóníuhljómsveit Íslands verður færð undir heildarlög um tónlist, nái frumvarpið fram að ganga. Aðgengi, inngilding og jafnrétti eru mikilvæg leiðarstef í nýrri tónlistarstefnu og áhersla er lögð á að frumvarpið endurspegli þau gildi. Þá verður í hvívetna gætt að jafnrétti óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu við skipan í stjórnir, nefndir, ráð, störf og val í verkefni sem bjóða upp á þátttöku fag- og listamanna.

Verði frumvarpið samþykkt skal framkvæmd laganna endurspeglast í fjölbreyttum hópi þátttakenda á sviði tónlistar. Vegna vísbendinga um að ákveðins kynjahalla kunni að gæta í tónlistariðnaði er ástæða talin til að árétta að markmið laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og laga um jafna meðferð utan vinnumarkaðar í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Hið blómlega tónlistarlíf á Íslandi hefur fært okkur ríkan menningararf sem á sér fastan sess í hjörtum okkar allra. Tónlistin er ekki bara einn veigamesti hlutinn af menningu landsins. Hún er einnig atvinnuskapandi og mikilvæg útflutningsgrein þar sem hvert tónlistarverkefni skapar mörg afleidd störf. Framleiðsla á tónlist hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum áratugum hér á landi án þess að innviðir þessara mikilvægu listgreinar, þ.e. fyrirtækja á sviði tónlistar, hafi fylgt með. Blómlegur tónlistariðnaður er forsenda þess að utanumhald tónlistarverkefna haldist á Íslandi og að upp byggist sterkt tónlistarumhverfi. Umhverfi tónlistar á Íslandi er frjótt og er það öflugu tónlistarfólki og fagfólki innan tónlistar að þakka. Hlutverk stjórnvalda er að hlúa að tónlistargeiranum og rækta með því að styðja við bakið á listafólki og huga um leið að því að jarðvegurinn geti nært grasrótina og vöxt sprota sem og annarra fyrirtækja. Með frumvarpinu eru stigin stór skref í stuðningi við frekari uppbyggingu þessarar mikilvægu listgreinar sem er okkur svo mikilvæg og kær.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið gangi til 2. umr. og til umfjöllunar hv. allsherjar- og menntamálanefndar.