153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

bráðadeild Landspítalans.

[11:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir þessa fyrirspurn um stöðuna á bráðamóttökunni. Við erum auðvitað að fara í gegnum mjög krefjandi aðstæður og holskeflu veirusýkinga sem má segja að hafi komið í kjölfar heimsfaraldurs. Það má segja að enn eitt álagsprófið hafi verið sett fyrir heilbrigðiskerfið og undirstrikar í raun og veru hversu öflugt og þrautseigt kerfið er og starfsfólkið. Það er auðvitað miður þegar upp koma alvarleg atvik en þau gerast og maður verður alltaf jafn miður sín með það. Ég get að sjálfsögðu ekki tjáð mig um sértilvik en þau fara í hefðbundið ferli. Það hefur verið til umræðu og ég er með í undirbúningi frumvarp sem lýtur að því að styrkja öryggið í heilbrigðiskerfinu og öryggismenninguna.

En að þessari holskeflu. Veirusýkingarnar eru aðeins að fara niður. Við vorum öll hér að ferðast um landið í síðustu viku og þetta álag birtist á öllum heilbrigðisstofnunum. Í sumar og í aðdragandanum að þessari holskeflu, sem búið var að vara við að væri í uppsiglingu, fórum við í fjölmargar aðgerðir með bráðamóttökunni, með spítalanum, til þess að undirbúa þetta. Ég skal koma inn á þær aðgerðir hér í seinna andsvari. En ég fór jafnframt yfir það með hv. velferðarnefnd hér fyrr í mánuðinum.