153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

bráðadeild Landspítalans.

[11:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég vona heitt og innilega, og ég veit að allir hér inni munu styðja hann í því, að hann sjái til þess að byrgja þennan brunn áður en fleiri detta ofan í hann og verða fyrir óbætanlegum skaða. En ástandið er samt enn þá skelfilegt. Við erum með ástand þar sem er ekki búið að semja við sjúkraþjálfara og ekki semja við sérgreinalækna og við erum með ástand þar sem fátækt fólk þarf að borga frá 2.000 kr. og upp í tugi þúsunda fyrir komu til sjúkraþjálfara eða sérgreinalækna. Við erum að nálgast það að vera með 10.000 manns á biðlista eftir aðgerðum í heilbrigðiskerfinu. Það sem er enn þá alvarlegra er líka að tilkynningar um lyfjaskort eru að stóraukast. Lyfjaskortur er að verða hættulegur. Fólk hefur orðið fyrir skaða vegna þess að það hefur ekki fengið sín lyf. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar hann að leysa þetta og sjá til þess að þetta ástand skaði ekki fleiri?