bráðadeild Landspítalans.
Hæstv. forseti. Það var í síðasta mánuði — tíminn líður hratt — sem ég kom fyrir hv. velferðarnefnd að beiðni hv. þingmanns og þá fórum við yfir þær aðgerðir sem þurfti að fara í, m.a. til að styðja við fráflæði frá Landspítala þar sem birtingarmyndin er á bráðamóttökunni. Við fjölguðum rýmum úr 24 í 44 í ágúst, síðan eru 39 endurhæfingarrými á Sólvangi og svo 29 rými bara í desember, sérstaklega til að bregðast við vandanum. Það eykur álagið á bráðamóttökunni, eins og hv. þingmaður fór yfir, þegar fólk kemst ekki upp á deildir og flæðið er ekki nægjanlegt. Í sumar settum við á stofn viðbragðsteymi bráðamóttöku sem er með 39 tillögur sem við erum þegar byrjuð að vinna úr, m.a. uppfært allan tækjabúnað alls staðar á landinu. Þetta er fjölmargt.
Varðandi lyfjaskort sem allur heimurinn er að kljást við, (Forseti hringir.) þá heldur Lyfjastofnun mjög vel utan um það og ég hvet hv. þingmann til að fylgjast með því. Vikulega er birt yfirlit yfir það og sem betur fer (Forseti hringir.) hefur hingað til náðst að bregðast við með svokölluðum undanþágulyfjum með sama nafni og sömu virkni. (Forseti hringir.) Vonandi tekst okkur að halda í horfinu með það.