153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

aðgerðir í geðheilbrigðismálum.

[11:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lenyu Rún Taha Karim fyrir þessa fyrirspurn um þetta brýna mikilvæga mál. Ég skal játa það hér í upphafi að mögulega vorum við ekki nægilega snemma í þessu ferli, í uppbyggingarferli þessarar miklu framkvæmdar sem við sjáum birtast núna mjög hratt við Hringbraut þegar kemur að stöku byggingum og stöku deildum. Það hefur staðið til bóta og það er búið að efla mjög það heildarskipulag sem heldur utan um þessi mál, um skoðun á stöðu eldri bygginga. Þar er NLSH ohf. búið að eflast mikið þennan tíma frá 2010 þegar það varð til og svo er stýrihópur að störfum líka með þátttöku ráðuneyta og sérfræðinga og m.a. hefur verið gerð skýrsla um stöðu bygginga. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er ekki boðlegt og ekki raunhæft ástand bygginga bæði á Kleppi og við Hringbraut fyrir að vera með þessa starfsemi. Það sem ég gerði var að ég var með mjög öflugan starfshóp sem var í miklu notendasamráði um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Hluti af þeim starfshópi hélt áfram til að vinna út frá þessari skýrslu og skoða húsnæðismálin og ætlar að leggja til hvað er skynsamlegast að gera, bæði varðandi staðsetningu, uppbyggingu og umhverfi og horfa svolítið inn í framtíðina með okkur um uppbyggingu á nýju húsnæði fyrir geðdeild. Og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta hér upp. Þetta er mjög brýnt og mjög mikilvægt mál.