153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

aðgerðir í geðheilbrigðismálum.

[11:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lenyu Rún Taha Karim fyrir þessa fyrirspurn, sem er samofin því sem við vorum að ræða hér varðandi húsnæðismálin. Nei, auðvitað er það ekki boðlegt — svo að ég svari því bara hreint út. Þetta er aðeins flókið þegar saman fer flókinn geðvandi og fíknisjúkdómur. Ég hef aðeins verið að kafa ofan í þetta mál og átti m.a. nýlega fund með yfirlækni á Vogi þar sem er meðferð. Til að skilja þetta þurfum við að gera það skilvirkara þegar fólk þarf bráðameðferð, að það komist á réttan stað nægilega hratt. Þetta er svolítið flókið á milli almennu bráðamóttökunnar og bráðamóttöku geðdeildar. Svo erum við með tvö pláss sérstaklega tengd Vogi til að fólk fari hratt í gegn og komist þangað í afeitrun. (Forseti hringir.) Þetta er vissulega mjög flókið, en við þurfum að gera þetta miklu skilvirkara og betra fyrir fólkið sem þarf þjónustuna. Ég ítreka þakkir fyrir að taka þessi mál á dagskrá.