153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[11:38]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hér á dagskrá. Það gerum við í raun og veru allt of sjaldan og umræðan í fjölmiðlum litast svolítið af því, eins og hv. þingmaður kom inn á, sem menn hafa kannski mestan áhuga á en ekki er endilega alltaf rætt við þá sem eru kannski næst vettvangi og vita mest um málið. Í mínum heimi er oft þannig, og þannig túlkaði ég orð þingmannsins — er glasið hálffullt eða hálftómt? Frá mínum bæjardyrum er það hálffullt og ég held að það sé ekki keppni um annað en hver elski þennan sáttmála mest. [Hlátur í þingsal.] Ég held að það séu allir sammála um gríðarlegt mikilvægi þess að hafa náð saman á árinu 2019, eftir tveggja ára samtal, um 15 ára sýn, fullt af nýjum verkefnum og nýja hugmyndafræði. Ekki er óeðlilegt að fjórum árum síðar þurfi menn að staldra við og segja: Hvernig hefur þetta þróast? Það þýðir ekki að það þurfi að taka upp sáttmálann. Það þýðir hins vegar að við verðum að fara ofan í framkvæmdaáætlanir. Þær voru mjög brattar og bjartar, það vissum við held ég öll. Staðreyndin er hins vegar sú að af ellefu stofnframkvæmdum eru þrjár búnar, sú fjórða að klárast og fimmta að hefjast. Það er búið að leggja 13 km af hjólastígum. Það er búið að koma í ljós að hjólastígar eru mikilvægari en við héldum þarna fyrir fjórum, fimm árum og það þarf kannski að leggja aðeins meiri áherslu á þá inni í næstu framtíð. Við höfum átt fundi með Betri samgöngum. Við áttum síðast fund í stýrihóp sem stjórnar þessu verkefni en hann er sá hópur sem tekur ákvarðanirnar og fulltrúar eru bæði frá SSH og ríkinu. Við erum sammála um að halda því samtali áfram sem gæti t.d. endað með einhvers konar uppfærslu eða viðauka þar sem við erum búin að raða framkvæmdum upp á nýtt, endurmeta kostnað og þær forsendur sem lágu fyrir í því skyni að gera sáttmálann enn betri og ég hlakka til þeirrar vinnu.