153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[11:40]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Það er gott að heyra afdráttarlausan stuðning hæstv. ráðherra við bættar samgöngur. Ég er honum sammála um að glasið sé hálffullt að þessu leyti. Persónuleg reynsla mín er sú að það er nú kannski oftar svona í lok vikunnar sem glasið tekur að tæmast en það er önnur saga. En ég vildi vekja athygli á tillögu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn í síðustu viku þar sem talað er um, með leyfi forseta, að „gríðarleg óvissa“ ríki um fjármögnun samgöngusáttmálans. Gríðarleg óvissa um fjármögnunina. Það er önnur gagnrýni sem mér finnst áhugaverð vegna þess að hún beinist auðvitað mjög augljóslega að fjármálaráðherra þessarar ríkisstjórnar og formanni Sjálfstæðisflokksins ef það er rétt að óvissa ríki um fjármögnunina. Þannig að ég vil í lokin spyrja hæstv. innviðaráðherra um hvort hann taki undir áhyggjur Sjálfstæðismanna um að formaður þeirra muni ekki standa við samkomulag um fjármögnun. Ríkir í alvöru einhver gríðarleg óvissa um að ríkisstjórnin ætli sér að standa við sinn hluta samkomulagsins?