samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.
Virðulegur forseti. Það er nú þannig að í þessu samkomulagi sem við gerðum vorum við það framsýn að halda ýmsum möguleikum opnum um fjármögnun sáttmálans þannig að ég hef í sjálfu sér litlar áhyggjur af því. Það er hins vegar alveg rétt að það hefur dregist að koma fram með frumvörp er varða umferðarstýringar og flýtigjaldahliðina. Við erum með verkefnastofu, innviðaráðuneytið og fjármálaráðuneytið, sameiginlega sem er á fullu og mun skila árangri. Þessi verkefni eru þar undir en eru auðvitað miklu stærri vegna þess að við erum að fara að skipta um tekjukerfi í samgöngum, fella út bensín- og dísilgjöld og taka upp einhvers konar annað kerfi. Þá þarf samspilið við hugsanlega gjaldtöku að vera alveg skýrt til að tryggja sanngirni gagnvart ólíkum hópum, landshlutum o.s.frv. Þannig að ég vænti bara mikils af þessari vinnu. Þótt hún hafi dregist eitthvað þá hef ég ekki meiri áhyggjur af því en svo að hún klárist, að sjálfsögðu, vegna þess að það er bara hluti af því að skipta hér um tekjumódel.