Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:08]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir að vekja athygli á þessu máli og koma því til umfjöllunar. Útvarpsgjaldið hefur lengi verið umdeilt, það er vissulega rétt, og deilan hefur verið af ýmsum toga, t.d. um upphæð þess og hvort allir séu skyldugir til að greiða gjaldið. Með tækninýjungum og samfélagsþróun síðastliðin ár hefur tilgangur og starfsemi Ríkisútvarpsins breyst og þróast. RÚV, sem áður var okkar helsta fréttaveita og mikilvægur öryggisaðili gegnir nú hlutverki venjulegs miðils, ef þannig má að orði komast. Með tilkomu fleiri fjölmiðla um allt land og á vefnum þá hefur RÚV í rauninni ekki lengur þá sérstöðu sem áður var. En breyttir tímar kalla almennt á breyttar áherslur. Við sjáum marga leita til annarra fjölmiðla en RÚV í leit að fréttum eða annarri afþreyingu, sem er jákvætt því að við fögnum fjölbreytileikanum, en því kemur upp eðlileg vangavelta um hvort þörf sé á nýrri nálgun. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann hugsi sér einhver takmörk eða skilyrði varðandi þann fjölmiðil sem einstaklingur mætti ráðstafa þessum allt að þriðjungi gjaldsins til.