Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:14]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir bæði að leggja þetta mál fram og fyrir ræðuna og hvernig hann fylgdi því öllu úr hlaði. Ég hugsa að fyrir einhverjum árum síðan þá hefði ég mótmælt þessari tillögu mjög harðlega en í dag er ég kominn á þá skoðun að þeim mun fleiri hugmyndir sem við fáum um það hvernig hægt er að efla fjölmiðlaumhverfið á Íslandi, því betra. Ég er svolítið sammála því sem var auðvitað kannski í og með inntakið og örugglega líka tilgangurinn sem er að við þurfum að búa til einhvers konar kerfi utan um þetta allt saman, Ríkisútvarpið og einkarekna miðla, þannig að þeir geti starfað með einhverjum fyrirsjáanleika til framtíðar. Við eigum ekki að ganga út frá því að Ríkisútvarpið eigi að vera óumbreytanleg stærð. Við eigum að velta vöngum yfir því hver staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði er og hér er komin fram tillaga um að nefskatturinn geti runnið til fleiri heldur en Ríkisútvarpsins. Gott og vel. Skoðum það líka. Ég ætla reyndar að koma betur inn á þetta allt saman í ræðu á eftir. Það er hins vegar algjörlega bjargföst skoðun mín, hafandi fylgst ágætlega með íslenskum fjölmiðlamarkaði lengi, að leiðin til þess að efla íslenskt samfélag, leiðin til að efla lýðræðislega umræðu, leiðin til þess að skjóta styrkari stoðum undir samfélagið allt er með því að fjölmiðlar allir, fjölmiðlaumhverfið allt, verði öflugra. Þar af leiðandi langar mig svolítið til að fá það fram hér hjá hv. þm. Bergþóri Ólasyni sem flutti málið hvort hann sjái fyrir sér að mögulegu tekjutapi Ríkisútvarpsins af þessu yrði mætt með einhverjum öðrum hætti eða hvort hann sjái það fyrir sér að það sé þá bara í fínu lagi að Ríkisútvarpið veikist þá kannski pínulítið tilviljanakennt og áður en menn fari í einhverja vinnu við að skoða hlutverk þess og umfang í samfélaginu til lengri tíma. Er þessi tillaga að veikja Ríkisútvarpið og er það bara í fínu lagi ef það gerist?