Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:40]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir andsvarið og spurninguna. Ég skynja reyndar umræðuna þannig á milli einkareknu miðlanna og Ríkisútvarpsins, þ.e. þegar forsvarsmenn einkarekinna miðla eru að tala um tilvist Ríkisútvarpsins, að það snúi að langmestu leyti að auglýsingamarkaðnum. Ég held að við komumst ekkert hjá því að skoða hvert hlutverk ríkisins eigi að vera á auglýsingamarkaði. Það er ekki hollt neins staðar, og allra síst þar sem við erum bæði með ríki og einkaaðila á sama markaði, að það sé upplifun þeirra sem eru á sama markaði og ríkið að það sé svo algerlega vitlaust gefið að það taki súrefni frá tilvist þeirra sem eru í einkarekstrinum. Mér finnst þetta nú mest vera þar.

Hvað það varðar hvernig Ríkisútvarpið eigi að líta út til lengri tíma, þá finnst mér menn stundum gera svolítið lítið úr því að Ríkisútvarpið, ef við ætlum að hafa það á annað borð, er eign allra landsmanna. Það eru ótrúlega miklar skoðanir á því þarna úti hvað Ríkisútvarpið eigi að gera. Sumir vilja að það sé bara, eða helst, í einhvers konar fréttamiðlun á meðan aðrir tala mikið um menningarhlutverkið. Enn öðrum finnst bara bráðnauðsynlegt að það sé öflug íþróttadeild sem fylgir landsliðunum okkar eftir og ýtir undir íþróttaáhuga landsmanna á meðan aðrir segja: Heyrðu, ég er að borga þetta líka, af hverju má ekki vera eitthvert létt skemmtiefni fyrir mig? Almannaútvörp í löndunum í kringum okkur eru með þessa blöndu. Það kannski verður líka til þess að þeir sem eru að horfa á skemmtiefni geta horft á eitthvert hátimbrað leikrit strax á eftir. Þetta vinnur allt saman og því treysti ég mér ekki út í það fen að ákveða það hvar best væri að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins að einhverju leyti áður en einhvers konar betri skoðun fer fram um það hvernig best væri að gera það. (Forseti hringir.) Ég vann þarna í áratugi og fór í gegnum nokkra niðurskurði, sérstaklega upp úr hruni, sem var auðvitað mjög sársaukafullt. (Forseti hringir.) Allt bitnaði það með einhverjum hætti á þeirri þjónustu sem við viljum samt að Ríkisútvarpið veiti.