Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:44]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka aftur fyrir fyrirspurnina. Mér finnst vel þess virði að skoða þetta. Það má þá velta því fyrir sér hvort þær upphæðir sem fara í að styrkja einkarekna miðla færu þá líka inn í þennan sjóð til að efla hann enn frekar. Allt þetta er eitthvað sem við þurfum auðvitað bara að fara yfir og skoða. Aðalatriðið er, eins og ég er búinn að segja nokkrum sinnum, að við verðum að skilgreina hlutverk fjölmiðla almennt í samfélaginu út frá því að þeir eru ein af burðarstoðum lýðræðisins. Út frá því þurfum við að fara í þá vinnu að reyna að átta okkur á því hvernig best væri að haga fyrirkomulagi almannaútvarps. Á að minnka það eitthvað, taka eitthvað út úr rekstrinum og gera þetta með öðrum hætti? Mögulega. Er hægt að taka hluta af útvarpsgjaldinu og láta það renna til annarra miðla? Já, mögulega. Er hægt að setja hluta af auglýsingatekjum í einhvern samkeppnissjóð og bæta því sem kemur í sjóð sem einkareknir miðlar sækja í — bæta þeim fjármunum inn í það líka? Já, mögulega.

Mér finnst einfaldlega að við séum á þeim stað með íslenskt fjölmiðlaumhverfi að við eigum ekki að útiloka neinar hugmyndir fyrir fram. Þó ætla ég hins vegar að útiloka þá einu hugmynd fyrir fram að það eigi að leggja niður Ríkisútvarpið, það finnst mér ekki. Mér finnst að það eigi áfram að vera öflug burðarstoð í íslenskri fjölmiðlun, einfaldlega vegna þess að svo margt gerist þar innan dyra sem einkareknir miðlar myndu aldrei fara út í að gera, alls konar menningarefni og annað. Það er nákvæmlega sama módel og við höfum á Norðurlöndunum og mjög víða annars staðar. Ég held að BBC sé mjög nærtækt dæmi um þetta. Það er auðvitað risi sem er margfaldur á stærð við Ríkisútvarpið og við getum aldrei haldið upp einhverri slíkri starfsemi, en ég held að menn skilji að einhver smækkuð mynd af því geti verið einhvers konar fyrirmynd.

Að lokum ætla ég að fagna þessari umræðu. Mér finnst þetta gott mál og ég vona að það verði til þess að hvetja hæstv. ríkisstjórn til dáða í þessu, (Forseti hringir.) að menn geri svolítið minna af því að tala um að það eigi að fara að gera eitthvað og fari loksins að einhenda sér í verkin.