Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[13:00]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir prýðilega ræðu. Þetta er ótrúlega mikilvægur punktur sem hann kemur með. Ég er svolítið sammála því að það hafi gerst hjá Ríkisútvarpinu að niðurskurður fyrri tíma hafi bitnað allharkalega á starfsemi Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni. Þá erum við aftur komin að þessu rofi sem ég talaði um í minni ræðu áðan, nema þá var ég að tala um rofið á milli einkarekinna miðla og Ríkisútvarpsins. Þegar það verður rof á milli landsbyggðar og almannaútvarps sem á að þjónusta allan almenning, þá bitnar það auðvitað á stuðningi fólks við almannaútvarpið og allri þeirri almennu velvild sem það ætti kannski alla jafna að njóta.

Það sem hins vegar vantar alltaf í umræðuna þegar við erum að tala um fjölmiðlarekstur er hvað þetta er ótrúlega dýrt. Þegar verið er að búa til einhverjar tvær eða þrjár mínútur í sjónvarpsfréttum þá kemur alveg ótrúlegur fjöldi að þeim. Dýr tækjabúnaður er þarna að baki, þetta er ekki bara einn maður með myndavél og gert á einhverjum klukkutíma, svo ekki sé talað um flóknari dagskrárgerð. Ég er svolítið á því að við þurfum að vera meðvituð um þetta og til að taka aftur undir það sem hv. þingmaður kom inn á þá erum við auðvitað ekki á góðum stað ef rof verður á milli lýðræðislegs hlutverks Ríkisútvarpsins og þeirra sem búa úti á landi.

Hitt er síðan annað, af því að talað var um á sínum tíma að efla ætti hlutina annars staðar á móti, t.d. á vefnum eða með þeim hætti, þá er það auðvitað ekki sami hluturinn. En engu að síður var það þannig að á þeim tíma sem þessi mikli niðurskurður var sem ég vísa til þá gerði hin almennari dagskrárgerð meira í því að fara um landið.

Mig langar í lokin að spyrja hv. þingmann um þetta sem hann kallar svo réttilega eftir. Þetta bítur alltaf í skottið á sér, er það ekki í raun og veru krafa um meiri fjármuni inn í Ríkisútvarpið?