ráðstöfun útvarpsgjalds.
Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir þetta innlegg í umræðuna. Á Norðurlöndunum og víðar er auðvitað lagt svolítið mikið upp úr því að hafa hluta af almannaútvarpi á mismunandi stöðum og svæðum. Þetta er kannski að einhverju leyti erfiðara í framkvæmd hér og þá kemur inn þessi hefðbundna fámennisumræða sem flækist fyrir okkur mjög víða í íslensku samfélagi eins og við þekkjum. Þetta er allt saman dýrt og landið okkar er dreifbýlt og allt það; við þekkjum þá umræðu. En það hefur verið útgangspunkturinn á Norðurlöndunum, a.m.k. sumum þeirra, að starfsemin sé ekki öll á einum stað og að passað sé vel upp á að hún dreifist víðar.
Úr því að ég er að eiga hér orðastað við þingmann Sjálfstæðisflokksins þá langar mig kannski að nota tækifærið og fá að spyrja hann aðeins, af því að þetta styrkjakerfi sem við erum með einhverjum hætti að reyna að byggja upp gagnvart einkareknum miðlum er auðvitað undir í þessu öllu. Ég árétta það enn eina ferðina að við þurfum auðvitað að gera þetta allt saman heildstætt og ekki í einhverjum bútasaum hér og þar. Ég held að mjög margir séu sammála því. Ég virði mjög skoðun sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji ekki að það sé starfandi almannavarnaútvarp. Það eru alveg gild rök fyrir því en ég er bara ekki sammála.
Mig langaði út af umræðunni um einkareknu miðlanna að inna hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson eftir skoðun hans á þessu kerfi sem við erum að byggja upp gagnvart einkareknu miðlunum og því fyrirkomulagi sem við erum með þar. Er það ekki rétt sem ég hef verið að upplifa, að ástæðan fyrir því að það hefur verið erfitt að koma því í gegn eða einhverju skikki á það, er andstaðan við það í þingflokki hv. þingmanns meðal ríkisstjórnarflokkanna?