samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.
Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að mæla fyrir þessu máli. Sjálfur er ég stuðningsmaður, held ég að ég leyfi mér að segja, næstum því allra mögulegra leiða til að ýta áfram bættum samgönguinnviðum, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem oft teiknast upp hálfgerð hryggðarmynd þegar sérstaklega malarvegir í sveitum og oft tengivegir og jafnvel stofnvegir, eins og t.d. Skógarstrandarvegur, eru til athugunar. En mig langar til að spyrja hv. þingmann út í það hvort sú nálgun sem hér er lögð til sé ekki undirorpin því að það sé þegar búið að vinna og leggja fram stefnu og samþykkja, a.m.k. leggja fram svo menn viti eitthvað hvað til síns friðar heyrir, stefnumörkun hvað varðar almenna gjaldtöku af akstri og ökutækjum og sömuleiðis regluverk er varðar skattheimtu gagnvart samvinnuverkefnalögunum sem hér er lögð til breyting á. Minn skilningur er sá að við eigum von á slíkum tillögum, annaðhvort frá fjármálaráðherra eða innviðaráðherra, en þær hafa ekki sést enn sem komið er. Sér hv. þingmaður fyrir sér að það sé fært að fara þessa leið, sem sannarlega setur sveitarfélög á nærsvæðunum í þá stöðu að geta unnið hraðar, tosað verkefni hraðar fram? Er hægt að vinna þá vinnu án þess að þessi almenna stefnumörkun liggi fyrir? Sömuleiðis langar mig að spyrja hv. þingmann: Þriðja áætlunartímabil hefur oft verið svona álitið minnispunktar frekar en raunveruleg meining og sérstaklega eftir að þriðja áætlun um tímabilið var lengd í 15 ár úr 12 árum áður, er ekki hætta á því að seinni hluti framkvæmdaáætlunar eða seinni hluti jarðgangaáætlunar verði svona heldur berrassaður framkvæmdalega séð ef vel tekst til með þetta verkefni (Forseti hringir.) þannig að það verði úr litlu að spila þegar kemur að því sem í dag heitir þriðja áætlunartímabil? Eða sér hv. þingmaður fram á að það verði þá (Forseti hringir.) fyllt á þann stabba með auknum fjárveitingum síðar meir?