Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

485. mál
[13:37]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að koma með þessa mikilvægu umræðu í þingið varðandi það hvernig við getum eflt og byggt upp enn frekar samgöngukerfið okkar. Ég tel nefnilega að við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að byggja upp og bæta vegi, það eykur öryggi vegfarenda og tengir saman byggðarlög, auk þess sem það getur skapað ný tækifæri á sviði atvinnu og menntunar, svo ég tali nú ekki um aukinn fjölda ferðamanna. Svokölluð PPP-verkefni eru leið til að flýta fyrir framkvæmdum og liggja fyrir ýmsar ástæður fyrir ágæti þeirra. Þau geta verið leið til að viðhalda fjárfestingu í erfiðu árferði og geta virkjað kosti einkaframtaks í samgöngum. PPP-verkefni hafa verið sett í samgönguáætlun sem tekur reglulegum breytingum af hálfu Alþingis og nú er búið að tilgreina þær sex framkvæmdir sem teljast hagkvæmar út frá arðsemi og samþykkja einmitt hér í þingsal.

Frú forseti. Við eigum ávallt að leita leiða til að auka öryggi landsmanna og því fagna ég þessari umræðu enda tillaga hv. þingmanns í anda samvinnu. Hins vegar er margt óljóst sem þarfnast frekari útskýringar og eflaust einhverrar yfirlegu og því vil ég byrja á því að spyrja hv. þingmann varðandi ábyrgð á þessum verkefnum sem yrði ráðist í ef þetta frumvarp yrði samþykkt. Hver ber þessa ábyrgð? Þá er ég að meina ábyrgð varðandi hönnun, veghald í framhaldinu og einnig fjárhagslega ábyrgð þar sem samgönguáætlun er ekki meitluð í stein og getur tekið breytingum.