Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

485. mál
[13:39]
Horfa

Flm. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ingibjörgu Isaksen hennar andsvar. Ef ég horfi bara á þau lög sem við höfum þegar samþykkt og þær samgönguframkvæmdir sem við höfum þegar samþykkt hér þá kemur þessi tengivegahugmynd eða samfélagsvegahugmynd í raun og veru í beinu framhaldi af t.d. fjármögnun vegarins um Öxi og fleiri slíkum framkvæmdum þar sem hluti fjármögnunar fer af samgönguáætlun og annar hluti er vegna framlags sem innheimt er með veggjöldum. Ég ætla ekki að ganga hér fram og segjast hafa öll svörin á hendi en segi aftur á móti: Verði ríkisvaldið við beiðni sveitarfélags sem myndi mæla með samningagerð við samgöngufélag sem það hefur jafnvel haft forgöngu um að stofna, þá eru það einfaldlega samningsákvæði við ríkið sem gilda um hversu langt á að ganga í þeim efnum. Á að yfirtaka þegar hannaðan veg af Vegagerðinni eða ætlar samgöngufélagið að hanna veginn og bera síðan ábyrgð á þeirri framkvæmd og fjármögnun hennar og að hún standist kostnaðaráætlun? Ég einfaldlega geri ráð fyrir því að þegar gerður er samgöngusáttmáli eða samningur við samgöngufélag þá færir ríkisvaldið ábyrgð sína yfir á það félag og það stendur undir þeirri ábyrgð sem mörkuð er í þeim samningum þannig að ég sé ekki í sjálfu sér stór vandamál í þeim efnum. En það er sjálfsagt að við ræðum síðan þætti eins og viðhald vegarins og við hvaða aðstæður við skilum honum. Það var t.d. ákvæði í verkefninu um Hvalfjarðargöngin á sínum tíma. Meginmálið er aftur á móti þetta: Hér verða ákveðin ábyrgðarskil ef kostnaður fer úr böndunum. Það eru nákvæmlega þættir sem við getum vel tekið á í slíkri samningagerð og einn kostur, ef samgöngukostnaðaráætlun stenst ekki, er að hafa rými til að lengja í veggjöldum. (Forseti hringir.) Og ef tekjurnar eru meiri af viðkomandi framkvæmd flýtir það skilum vegarins til ríkisins aftur.