Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

485. mál
[13:41]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við höfum auðvitað ítrekað bent á það að samgönguáætlun liggur núna fyrir þar sem á að leggja af stað með tiltekin verkefni og hún er lögð fram til 15 ára og er endurskoðuð reglulega. En í frumvarpi þessu sem lagt er hér fram er fjallað um heimild sveitarfélaga til að taka að sér PPP-verkefni í minni háttar verkefnum eða minni háttar framkvæmdum og það eru í rauninni bara smærri framkvæmdir á vegum sem eru eflaust fáfarnari heldur en nú er lagt til í þessum PPP-verkefnum og margir aðrir gert ráð fyrir gjaldtöku væntanlega fyrir slíkar ferðir. Mikilvægt í PPP-verkefnum er einmitt að skoða grundvöll fyrir framkvæmdunum, að þær séu hagkvæmar, og út frá arðsemi. Þar sem um er að ræða minni framkvæmdir vega sem eru fáfarnari vil ég spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái fyrir sér að gjaldtökunni verði háttað. Hann fór aðeins inn á það áðan í máli sínu. Er verið að hugsa um það að íbúar greiði gjald þegar þeir fara um veginn? Erum við þá í rauninni að ræða um landsbyggðarskatt? Er hv. þingmaður að leggja til að þessar framkvæmdir fari fram fyrir þegar samþykktar PPP-framkvæmdir sem hafa verið samþykktar hér í þinginu í ljósi hagkvæmni og fýsileika?