samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.
Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir þetta fram komna frumvarp um leiðir að því, hvað á maður að segja, að flýta framkvæmdum. Þetta hlýtur að vera hugsað í þeim tilgangi. Ég get ekki annað en tekið undir orð hans hér um mikilvægi samgangna og innviða, ekki síst í hinum dreifðu byggðum landsins. Bið eftir vegabótum í héraði getur auðvitað verið algerlega óþolandi þegar hún tekur ár og jafnvel áratugi. Eins og komið hefur fram líka í dag þá skemmir þetta auðvitað bíla og annað slíkt og það að nýir vegir komi til sögunnar eða vegir séu bættir opnar líka ný svæði fyrir ferðaþjónustu og annað, eins og bent hefur verið hér á, fyrir utan það að þetta styrkir kannski líka dreifræði á þessu landi og valdeflir dreifbýlið og landsbyggðirnar. Ég hef hins vegar ákveðnar spurningar hvað varðar fjárhagslegan stöðugleika sveitarfélaga, af því að þau eru ákaflega misburðug, og ég ber ákveðinn ótta í brjósti um að kapp verði kannski meira en forsjá að mörgu leyti til að þrýsta á um löngu tímabærar vegaframkvæmdir. Hefur hv. þingmaður eitthvað velt því fyrir sér hvernig væri möguleiki að tryggja fjárhagslegan stöðugleika þeirra aðila sem ráðast í að stofna slík félög utan um mjög dýrar framkvæmdir?