samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.
Frú forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að leggja fram þetta mál með meðflutningsmönnum sínum. Það er auðvitað allra hluta vegna mikilvægt að við reynum að styðja við framkvæmdir á lélegum vegum á landsbyggðinni eins vel og mögulegt er því að eins og við þekkjum hér öll til langs tíma er tengivegasjóður Vegagerðarinnar varla upp í nös á ketti, svo það sé bara orðað eins og er. Þannig að í því samhengi fagna ég framkomu þessa máls og þessu prinsippi og þetta er púsl inn í þá mynd og vonandi dregur fram þá sýn þingheims að það þurfi að ganga betur að bæta vegasamgöngur í hinum dreifðari byggðum.
Það eru eins og gengur nokkur atriði sem ég hef áhyggjur af í heildarnálgun stjórnvalda á uppbyggingu vegakerfisins á landsbyggðinni. Ég kom inn á það hér í andsvari við hv. þm. Harald Benediktsson, ekki bara í gríni, að til að mynda þriðja áætlunartímabil samgönguáætlunar hefur verið hanterað svona að nokkru leyti sem minnispunktar frekar en raunveruleg áform eða staðfesting þess að til tiltekinna framkvæmda verði gengið af hálfu stjórnvalda. Þessi nálgun gagnvart þeim verkum sem til að mynda yrðu formuð félög í kringum verði þetta samþykkt gæti auðvitað aukið aga á stjórnvöld hvað það varðar að ganga um þriðja áætlunartímabilið öðruvísi en að vera dálítið meðvitað að plata þá sveitarstjórnarmenn og þá sem búa á þessum svæðum því að það er stutt síðan að þriðja áætlunartímabilið færðist úr því að ná yfir ár 9–12 frá samþykkt þingsályktunar yfir í ár 11–15. Fimmtánda ár frá samþykkt samgönguáætlunar er býsna langt fram í tímann, jafnvel í samgöngulegu tilliti. Þess vegna hefur oft verið ansi mikill losarabragur á þessu þriðja áætlunartímabili og ég er hræddur um að það bæti í með því að nú hefur tímabilið verði lengt í 15 árin sem áður var 12. En nálgun sem þessi gæti auðvitað aukið aga á okkur stjórnmálamönnunum hvað það varðar að vera ekki að hringla með það eins og verið hefur.
Ég hef sömuleiðis svolitlar áhyggjur af því með seinni hluta að ef vel tekst til og segjum að það verði formaður allnokkur fjöldi félaga um vegi sem nærsamfélagið telur skynsamlegt að ganga til með þessum hætti, að flýta framkvæmdum, þá verði að óbreyttu svolítið svona berrassaður seinni hluti framkvæmdaþáttar langtímasamgönguáætlunar. Ef við horfum á tímabilið 11–15 ár frá samþykkt, ef við segjum bara að helmingur þeirra verkefna sem þar er inni verði færður fram með þessum hætti þá erum við á þeim stað, þó við verðum alla vega mörg hver ef ekki flest hætt á þingi þegar þar að kemur, ef við hættum ekki öll í næstu kosningum, að þá verði lítið eftir ef ekki kemur til viðbótarfjármagn til að bæta inn verkefnum á þann tíma. Það mun auðvitað æra þá sem þá verða með óbætta vegi ef menn sjá fram á að það verði í raun sáralitlar framkvæmdir á því sem í dag heitir þriðja áætlunartímabil hverrar samgönguáætlunar, af því það er búið að draga helming eyrnamerktra fjárveitinga þess tímabils fram í tíma. Þetta er atriði sem ég held að þurfi að skoða inn í umhverfis- og samgöngunefnd. Auðvitað eru skilaboðin sem ég held að þingheimur eigi að lesa út úr þessari stöðu sem mun koma upp ef vel tekst til þau að það þurfi að finna leið til að auka fjárveitingar til vegagerðar í dreifbýli frá því sem nú er. Og ég ítreka aftur að þó að tengivegsjóður hafi stækkað fyrir ekki mörgum árum síðan þá er hann enn varla upp í nös á ketti hvað það varðar að komast áfram í hinum dreifðu byggðum. En, já, ég bara vísa því til umhverfis- og samgöngunefndar að þessi þáttur verði skoðaður í þessu samhengi.
Ég kom sömuleiðis inn á það í andsvari við hv. þm. Harald Benediktsson áðan að ég hefði ákveðnar áhyggjur af því að þessi almenna stefnumörkun um gjaldtöku af akstri og ökutækjum lægi ekki enn fyrir og það tengist ekki bara þessu máli. Auðvitað tengist það öllum öðrum málum sem eru þessari fjármögnun undirorpin, hvort sem það er samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins, samvinnuverkefnin eða önnur. Það er ekki bara hvað gjaldtökuna varðar, sem sagt sértæku gjaldtökuna með veggjöldum heldur líka bara almenna gjaldtöku af akstri og ökutækjum. Það hefur verið ótrúlega torsótt hjá stjórnvöldum sem með þessi mál fara að koma fram heildstæðri sýn. Það er nú þannig að við í Miðflokknum erum búin að leggja drög að skynsamlegum hugmyndum að við teljum í þessum málum og höfum verið að bíða eftir stjórnvöldum, að þau leggi fram sínar. En það endar kannski á því að við leggjum fram okkar og sjáum hvort hæstv. innviðaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafi áhuga á að taka þær að einhverju marki til skoðunar í sinni vinnu. En miðað við tímann sem þetta tekur þá virðist vera einhver svona innri barátta sem orsakar það að erfitt er að koma fram með þessar hugmyndir því að þær eru búnar að vera væntanlegar núna árum saman.
Sérstakt áhyggjuefni í því, að mínu mati, er þessi veggjaldasýki hæstv. innviðaráðherra, sem ég hef kallað svo, og ég vil skilja aðeins á milli þeirra veggjaldahugmynda sem hér koma fram í frumvarpi hv. þm. Haraldar Benediktssonar og þeirra hugmynda sem samgönguráðherra hefur talað fyrir. Þar virðist vera grautað saman hinu ýmsa og við, almennir borgarar, sérstaklega þeir sem nota samgöngukerfið að einhverju marki, stöndum frammi fyrir því að ofan á þegar mjög mikla gjaldtöku af akstri og ökutækjum skuli nú bæta þrefaldri veggjaldatöku innviðaráðherra. Það eru veggjöld sem tengjast tafagjöldum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, svo við notum bara réttnefni eins og hv. þingmaður kom svo ágætlega inn á í framsöguræðu sinni. Það er sérstök gjaldtaka vegna þessara sex samvinnuverkefna sem voru römmuð inn í löggjöf sem nú er lögð til breyting á í þessu frumvarpi. Síðan eru það þessar hugmyndir, undarlegar sem þær mega vera, um að á öll jarðgöng sem þegar hafa verið tekin í notkun á Íslandi verði lagt gjald til að borga upp önnur jarðgöng sem auðvitað rekst algerlega á að mínu mati við þá skynsamlegu nálgun sem hér er lögð til, að það verði ein framkvæmd í einu félagi eins og í því tilviki þar sem best tókst til í sambærilegu verkefni, frumkvöðlaverkefni auðvitað, hjá Speli með jarðgöng undir Hvalfjörð. Ég vil bara að við gjöldum varhuga við því að þessar þreföldu veggjaldahugmyndir hæstv. innviðaráðherra bætist sem heild ofan á þegar mjög mikla gjaldtöku af akstri og ökutækjum.
Síðan eru þessar hugmyndir sem, ef ég skildi hv. þm. Harald Benediktsson rétt áðan, munu vera af sama meiði framkvæmdalega séð og raunin verður með samgönguverkefni, þá er þetta þó að því leyti öðruvísi að þarna er verið að tosa verkefni fram í tíma og það er auðvitað ákvörðun nærsamfélagsins að leggja af stað með verkefnið. Það er ekki eins og hugmyndir innviðaráðherra um gjaldtöku af öllum þegar opnuðum göngum, þær leyfi ég mér að segja að verði alls staðar í ósátt við nærumhverfið hvað grafin göng varðar. Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga og ræða þetta innan hv. umhverfis- og samgöngunefndar.
Það kom fram í ræðu hv. þingmanns, ég greip ekki hvort það kemur fram í greinargerðinni beint en í ræðunni nefndi hv. þingmaður það að við yrðum að skoða með hvaða hætti við gætum komist áfram með fáfarnari vegi með minni kröfum en nú eru viðhafðar, þ.e. ef ég hef þetta rétt eftir hv. þingmanni. Ég held að þetta sé skynsamleg nálgun og í raun nauðsynleg því að fyrir þá sem búa við vegi sem eru ekki á neinni þessara áætlana þá held ég að flestir væru þeirrar skoðunar að vilja komast á til að mynda bundið slitlag og nær nútímanum heldur en að velkjast áfram á gjörsamlega ónýtum oft og tíðum vegum sem varla hefur verið bætt í efni áratugum saman. Þetta er eflaust þáttur sem við ættum að ræða í samhengi við framlagningu samgönguáætlunar, sem ég held að sé áætluð núna á vorþinginu þótt ég ætli að spá því hér og nú að það verði ekki gert fyrr en á haustþingi en ég vona að ég hafi rangt fyrir mér. En þetta er þáttur sem ég hef verið þeirrar skoðunar að ætti að opna á með miklu frjálslegri hætti og þá aftur með sjónarmið nærsamfélaga hvers svæðis í huga í stað þess að þeir sem fjær svæðum sitji taki ákvarðanir sem í raun útiloka allar aðgerðir til bóta á þessum svæðum.
Þetta er það sem ég vildi segja um þetta frumvarp sem nú liggur fyrir. Ég ítreka það sem ég sagði áðan í andsvari mínu við hv. þingmann og framsögumann, Harald Benediktsson, að ég styð allar þær hugmyndir sem geta orðið til þess að flýta og auka við framkvæmdir á landsbyggðinni. Ég minni aftur á að ég vara við þessum þreföldu gjaldahugmyndum innviðaráðherra sem ég held að séu ómarkvissar og á köflum ósanngjarnar og skil þar á milli þeirra hugmynda annars vegar og þeirrar hugmyndar sem hér er sett fram, þó að útfærslan eigi eftir að koma fram. Og aftur held ég að við verðum að ávarpa það með hvaða hætti, ef vel tekst til, framkvæmdahluti samgönguáætlunar verði ekki algerlega berrassaður á þriðja áætlunartímabili þegar tímabil minnispunktanna rennur upp gagnvart þá þegar samþykktri áætlun. Ég læt þetta duga í bili.