samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.
Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek undir það sem þingmaðurinn sagði að agaleysið hefur verið algjört, sérstaklega gagnvart þessu þriðja áætlunartímabili langtímaáætlunar samgönguáætlunar. Mér finnst blasa við að það muni bæta í hvað það varðar, núna þegar tímabilið hefur verið lengt úr því að taka enda að 12 árum liðnum yfir í það að taka enda 15 ár fram í tímann. Ég held að allt sem hægt er að gera til að auka agann á okkur þingmenn hvað þetta varðar sé til bóta. Þess vegna kom ég sérstaklega inn á þann þátt í ræðu minni að þetta væri verkfæri sem gæti nýst til þess, sérstaklega ef tiltekin vegaframkvæmd fer inn í „format“ eins og þetta.
Fyrsta samgönguáætlunin — ég á nú að muna þetta og skammast mín fyrir að muna ekki ártalið — var lögð fram undir núverandi regluverki upp úr aldamótum, sennilega 2002–2004. Það leið ekki langur tími þangað til menn fóru að umgangast sérstaklega þriðja áætlunartímabilið með þeim hætti að þarna væri verið að auðvelda mönnum að fara í kosningabaráttu að samþykktri samgönguáætlun. Sennilega hefur það aldrei verið verra en 2016, sú áætlun sem þá var samþykkt var bara fullkomin vitleysa, svo maður orði það nú bara eins og er, og ég tek undir orð hv. þingmanns, að við þurfum að segja fólkinu í dreifðu byggðunum satt en ekki dingla einhverri gulrót fyrir framan þau sem er síðan kippt frá við næstu endurskoðun samgönguáætlunar.