Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

485. mál
[14:07]
Horfa

Flm. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Annað atriði sem hv. þingmaður kom inn á í sinni ágætu ræðu og ég vil taka utan um er kannski sá þáttur sem tengdist því að flýta öðrum vegabótum sem ekki er nein forsenda fyrir að fara í með slíkt módel. Ég horfi einfaldlega á það að við samningagerð um tiltekinn veg sem merktur er á samgönguáætlun, hvort sem hann er á fimm ára áætlun eða lengra fram í tímann — hvernig sem niðurstaðan verður um þann þátt þá getum við líka horft til annarra vegabóta á viðkomandi svæði. Ég bind vonir við það, þó svo að við höfum ýmsar skoðanir á kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar og hvernig hún birtist í samgönguáætlun, að við séum að auka svo mikið hagkvæmni þess að leggja vegi í einni framkvæmd, sem eru bútasaumaðir í dag, að við getum líka losað fjármuni þar út og notað síðan drifkraft markaðarins, þ.e. að góður vegur skapi meiri umferð; það þýðir meiri eftirspurn og meiri tekjur, bæði fyrir samfélag og veghaldara — að við getum þá notað hluta af þeirri fjárhæð sem er merkt á samgönguáætlun til tiltekins vegar, ef við tökum Skógarstrandarveg eða Vatnsnesveg sem dæmi, til að komast með ódýrari hætti í það að leggja slitlag á fáfarnari vegi, hvort sem við reisum þar fullar kröfur Vegagerðarinnar. Það er síðan umræða sem ég fagna að hv. þingmaður ætli að taka við framlagningu samgönguáætlunar, þ.e. að ræða kröfur. Ég virði þau sjónarmið sem Vegagerðin hefur haft um öryggi vega en með þessari aðferð, að flýta vegaframkvæmdum með þessum hætti, erum við náttúrlega að ná stórkostlegum árangri í að bæta umferðaröryggi. Það er ekkert umferðaröryggi í dag á Vatnsnesi og Skógarströnd. Þó svo að ég nefni þessa vegi og sé tamt að tala um þá af því að þeir eru í kjördæmi okkar hv. þingmanns sem flutti hér ágæta ræðu, þá geta að sjálfsögðu allir tengivegir, kannski stofnvegir og jafnvel hálendisvegir fallið undir það módel sem hér er lagt til.