samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.
Frú forseti. Ég fagna mjög svo að þetta frumvarp sé komið fram hér í þinginu, um breytingu á lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, betur þekkt sem samfélagsvegir, með þeim breytingum sem eru gerðar á 1. gr. laganna sem voru samþykkt á þinginu 2020. Hv. þm. Haraldur Benediktsson fór í gegnum liðina. Í a-lið 1. gr. segir að fyrirhuguð vegaframkvæmd sé sett á samgönguáætlun til 15 ára, í b-lið segir að áhugasamir fjárfestar, og sveitarfélög hafi þau áhuga, leggi til stofnframlag, í c-lið segir að félagið stundi ekki aðra starfsemi en samkvæmt lögum þessum, og í d-lið, sem er nú kannski svolítið mikilvægur fyrir málið í heild sinni og tengist öðru máli, sem er samgöngusáttmálinn í Reykjavík, segir að fyrir liggi kostnaður við viðhald og rekstur vegarins. Ég tel að d-liðurinn sé gríðarlega góð viðbót við lögin í sambandi við samgöngusáttmálann vegna þess að þar hefur aldrei komið almennilega fram hvernig eigi að reka þær framkvæmdir og hver rekstrarkostnaður sé við einstaka þætti eins og með hluta af því samkomulagi.
Það er búið að fara víða yfir sögu og ég ætla að hlaupa yfir nokkra punkta. Ég tek undir það sem kemur fram í greinargerð málsins, að hér er um nýja nálgun að ræða fyrir framkvæmdir í tengslum við tengivegi og safnvegi, og líka er komið aðeins inn á hálendisvegi. Sá sem hér stendur hefur margítrekað lagt inn í þingið þingsályktunartillögu um uppbyggingu Kjalvegar og þær breytingar á þessum lögum sem hér eru lagðar til gætu nýst í þeirri nýframkvæmdir og einkaframkvæmd sem ég legg til í því máli. Það er kannski aðeins öðruvísi í því máli að þar er lagt til að raunverulega sé um 100% einkaframkvæmd að ræða.
Það hefur aðeins komið fram hér með áhrif ferðamanna og ferðaþjónustunnar á vegina og þennan fjölda bílaleigubíla sem keyrir um allt Ísland og hefur stórvaxið á undanförnum árum. 2005 voru bílaleigubílar í landinu um 4.500 en eru komnir aftur í 20.000–25.000 í dag, svipað og var fyrir Covid. Það má ætla að þessum bílaleigubílum fjölgi enn ef spár rætast um fjölda ferðamanna hér á næstu árum. Mér segir svo hugur að eins og hér er rætt um Vatnsnesveg og Skógarstrandarveg gætu áhrif ferðaþjónustunnar og ferðamanna og bílaleigubíla verið töluverð á fjármögnun í tengslum við það verkefni. Vatnsnesvegur er í dag, eins og í ferðaþjónustunni fyrir norðan, markaðssettur í sjálfu sér sem sem ferðamannavegur, sem hluti af stærra samhengi Norðurstrandarvegar um allt Norðurland frá Hrútafirði og í Bakkafjörð með allri ströndinni. Við þekkjum að það er mikil umferð ferðamanna um Vatnsnesveg. Ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram í frumvarpinu um upplifun ferðamanna af vegum. Með nútímatækni er hægt að fá upplýsingar í gegnum netið og annað um leiðina og það væri hægt að gera þetta að einstökum stað. Það eru selalátur og auðvitað Hvítserkur á þessari hringleið þannig að það mun nýtast vel inn í þetta verkefni. Þar held ég að áhrifin verði mikil og góð fyrir allt dæmið.
Grunnhugmyndin lýtur að því að með veggjöldum og hlutafé sé hægt að flýta fyrir þeim samgöngubótum sem eru inni í samgönguáætlun. Eins og kom fram í umræðunni er helst verið að líta til þriðja áfanga, síðasta hluta samgönguáætlunar, síðasta þriðjungnum sem eru ár 11–15, að geta kippt þeim framar með þessari leið samfélagsvega. Í grunninn snýr þetta mál að því að bæta samkeppnishæfni sveitanna og búsetukosti með því að hafa öflugar samgöngur. Við þekkjum að það er grunnatriði í samfélögum mannanna að það séu öflugar og góðar samgöngur og raunar orðin alger grunnforsenda í uppbyggingu samfélaga almennt.
Ég naut þess fyrir áramót að sækja einn af þeim fundum, góðu kynningum, sem hv. þm. Haraldur Benediktsson hefur haldið um þetta mál, þegar ég sótti fjölmennan fund í Stykkishólmi um þetta mál. Þar kom m.a. fram að það er áhugi hjá langtímafjárfestum, mögulega lífeyrissjóðum, að fjármagna og hafa aðkomu að verkefnum sem myndu byggjast á þessari hugmyndafræði. Það er svo að það er fjöldinn allur af lífeyrissjóðunum úti um allt sem eru að leita að langtímaverkefnum sem eru til áratuga og er oft og tíðum vöntun á slíkum verkefnum.
Það er líka mikilvægt í þessu máli að mínu viti að það sé ein skilgreind framkvæmd innan hvers félags í tengslum við verkefnið. Í tengslum við það mál sem ég hef verið að vinna með síðustu ár um Kjalveg, og kem vonandi með á nýjan leik inn í þingið eins og ég kom inn á áðan, hafa m.a. verið hugmyndir um, af því að það er svo góð fjárfesting og arðurinn mikill af slíkri framkvæmd til lengri tíma, að tengja aðrar framkvæmdir á stærra svæði við til að láta þá framkvæmd fjármagna aðrar framkvæmdir, aðra vegi. Ég er sammála þeirri aðferðafræði sem farið er yfir og í gegnum í þessu frumvarpi, að þetta virki eingöngu fyrir eina framkvæmd. Ég var búinn að koma með hugmyndir um nokkra möguleika í þessu. Það er Vatnsnesvegurinn sem hefur verið talað um hér í dag sem ferðamannaveg og ég kom aðeins inn á áðan, og Skógarstrandarvegur, en eins kom fram í máli hv. þm. Bergþórs Ólafssonar hér áðan er umferðin þar örugglega miklu takmarkaðri og minni með núverandi vegi en gæti annars verið með betri vegi þannig að ég held að það gefi ekki góða tölu, raunverulega tölu, um hvernig staðan er á þeim vegi í dag. Hann er ákaflega slæmur og hefur verið lengi. En þarna yrðu mikil og góð áhrif fyrir Snæfellsnesið og síðan tenginguna við Dalabyggð um Skógarstrandarveg og held ég að það yrði mjög jákvætt og það yrði mikil umferð einmitt af ferðamönnum á bílaleigubílum ef þessi leið myndi opnast. Norðan heiða, í mínu kjördæmi, er ég t.d. að hugsa um Bárðardalsveg sem hugmynd inn í þetta og þá áhrif af ferðaþjónustunni í tengslum við Aldeyjarfoss, sem er einn af þeim fossum landsins sem er ótrúlega takmörkuð umferð um miðað við að þetta er með fallegri fossum landsins. En vegurinn þangað er slæmur og það er 30 km leið frá þjóðveg 1 við Goðafoss og að Aldeyjarfossi. Þannig að það er einn af þeim kostum sem mætti skoða og svo má örugglega telja til þó nokkuð marga aðra.
Varðandi núverandi vegi, sem hv. þm. Bergþór Ólafsson kom inn á áðan, og staðla á vegum landsins og að vegir séu uppbyggðir miðað við að þurfa ekki að fara eftir nýjustu stöðlum þá vil ég benda á að þegar Langanesströnd var tekin í gegn og tekin í notkun — ætli það hafi ekki verið fyrir tveimur árum eftir að hugmyndir komu fram í gegnum Bakkafjarðarnefndina á sínum tíma um að fara í þá vegagerð? Þá var kostnaðurinn kannski einn þriðji af því sem hann hefði annars orðið með því að nota núverandi vegstæði og þurfa ekki að fara að nútímastöðlum. Það hefði sem sagt aldrei verið farið í þá vegagerð nema af því að það var hægt að nota vegstæðið sem var til fyrir til að fara í þá framkvæmd. Gríðarlega mikil samgöngubót fyrir svæðið. Það er rétt að skoða hvaða möguleikar eru einmitt í tengslum við þetta mál og varðandi tengivegi og safnvegi landsins.
En í grunninn náttúrlega snýr þetta að, eins komið var inn á, búsetunni og því að efla hana. Mér fannst mjög vel orðað hjá framsögumanni málsins áðan að tala um valdeflingu samfélaga. Þetta snýst í raun um að þau fái einhverja von til lengri framtíðar um að eitthvað fari að gerast en séu ekki að bíða áratugum saman eftir einstökum framkvæmdum sem koma mögulega allt of seint og ná ekki að byggja upp viðkomandi samfélag eða viðhalda því. Það er bara þannig að sá ferðamannastraumur sem fer um landið, og umferð bílaleigubíla í dag er kannski í kringum 20% af allri umferð í landinu, getur haft mikil áhrif á fjármögnun einstakra samgönguverkefna og kæmi mér ekki á óvart þótt hlutfall bílaleigubílaumferðarinnar af heildinni færi vaxandi á næstu árum miðað við þær spár sem liggja fyrir hjá Ferðamálastofu og þeim sem hafa verið að spá fyrir um mögulega framtíð næstu tíu ár í ferðaþjónustunni og um fjölgun ferðamanna. Sama gildir um það sem ég ræddi áðan með Kjalveginn, ég held að það muni hafa mikil áhrif inn í það mál allt saman.
Ég vil rétt að lokum klára þetta um mikilvægi kjarna hugmyndarinnar sem kemur fram í greinargerð málsins. Kjarni hugmyndarinnar að baki frumvarpinu er að færa heimamönnum verkfæri til að taka málin í sínar hendur og bíða ekki eftir því að röðin komi að þeim í að bæta búsetuskilyrði. Þetta er bara grunnurinn að málinu. Og einmitt til að valdefla sveitarfélögin og samfélögin sem sjá kannski ekki fram á að neitt gerist í sínum málum á næstu árum. En ég er svo sannarlega með á málinu og styð það heils hugar.