samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.
Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir frumvarp það sem hann hefur hér mælt fyrir. Ég er ásamt fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins meðflutningsmaður á málinu og styð ég málið heils hugar. Síðasta öld var mikill uppbyggingartími í íslensku samfélagi og tókst okkur í okkar stóra og víðfeðma landi að byggja brýr, brúa stórfljót, tengja hringveginn okkar, bora í gegnum fjöll. Vegakerfið okkar er lífæð samfélagsins og við megum aldrei nokkurn tímann hægja á okkur í þeirri vegferð að bæta og byggja upp vegi landsins. Því miður hefur mér þótt ganga of hægt í mörgum verkefnum á undanförnum árum og áratugum. Vil ég þar helst nefna sveita- og tengivegi sem eru gríðarlega mikilvægir samgönguinnviðir því að ef þeir eru góðir þá taka þeir við umferð sem annars er á þjóðvegakerfinu. Tengivegir, hálendisvegir sem og aðrir stofnvegir eru í raun munaðarlausir í dag. Það eru fáir sem eru að berjast fyrir þessum samgöngubótum og þessir vegir hafa ekki verið í nokkrum forgangi. Hv. þm. Bergþór Ólafsson sagði áðan: Tengivegasjóður Vegagerðarinnar er varla upp í nös á ketti.
Mig langar að nefna nokkra vegi sem koma upp í huga minn í fljótheitum. Í uppsveitum Árnessýslu eru tugir kílómetra. Í Rangárþingi ytra og eystra eru um 70 km af sveitavegum sem margir eru varla ökufærir. Má þar t.d. nefna Holtahringinn sem er nú, þegar kemur þýða, ekkert annað en stórhættulegt forað og varla hægt að keyra veginn nema á stórum bílum. Þarna fara samt sem áður daglega skólabílar með börn í skóla og mjólkurbílar dag hvern. Það þarf að klára hringveginn um Þykkvabæ sem og Árbæjarbraut og Þingskálaveg. Nú er ég aðeins að nefna nokkrar framkvæmdir sem koma upp í huga minn í fljótu bragði í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi. Mig langar sömuleiðis að nefna Skógarstrandarveginn sem hér hefur verið nokkuð oft nefndur sem liggur frá Stykkishólmi yfir í Dali sem og veginn um Laxárdalsheiði milli Dala og Stranda. Þetta eru vegir sem áður fyrr voru mikið notaðir en eru í dag sniðgengnir af mörgum sökum lélegs ástands. Mig langar einnig að nefna veg norðan heiða sem er vegurinn út á Skaga, sem er sömuleiðis hálfgerð hörmung. Þar er vinsæll viðkomustaður ferðamanna og er mikil örtröð þangað til að skoða þau náttúruundur sem eru í Kálfshamarsvík.
Árið 2021 gáfu Samtök iðnaðarins út skýrslu um stöðu innviða. Í þeirri skýrslu fékk vegakerfið falleinkunn. Þar kom fram að vegakerfið uppfyllir ekki kröfur um öryggi, að lélegt ástand vega hafi áhrif á samkeppnishæfni og velmegun í landinu. Ástand vegakerfisins hefur áhrif á öryggi, á aðgengi og á umferðarflæði. Í sömu skýrslu kemur fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf vegakerfisins er um 180 milljarðar. Þar af er viðhaldsþörf sveitarfélagavega á milli 50–70 milljarðar. Hliðar- og tengivegir geta mjög víða létt umferð af hringveginum og eru mikilvægir í því að treysta byggð um land allt. Það er brýn nauðsyn að leita allra leiða til að færa þessa vegi til betra horfs því að það er ekki hægt að bjóða fólki upp á það að keyra stórhættulega vegi nú á 21. öldinni þegar fólk er einungis á leið heim til sín og ekki einu sinni fjarri þjóðvegum í mjög mörgum tilfellum. Það er ljóst að vegakerfið er grundvöllur samkeppnishæfni landsins sem og að tryggja búsetu. Ég er sannfærð um að það hefur áhrif á val margs ungs fólks sem hugnast það að flytja í dreifðari byggðir: Hvernig er vegurinn heim? Mun ég þurfa að keyra hann í aur og bleytu eða þola það að heimili mitt sé algerlega þakið rykmekki?
Þetta frumvarp er liður í því að færa ákvarðanatöku til fólks í nærumhverfi þess. Hér er verið að færa sveitarfélögunum tæki til að flýta framkvæmdum og uppbyggingu vega; færa ákvörðunarvald til fólksins. Það má með nokkrum sanni segja að þetta frumvarp er svar landsbyggðarinnar við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Við þurfum að leita nýrra leiða á svo mörgum sviðum hér á landi við uppbyggingu allra innviða okkar. Verum hugrökk, verum djörf og færum Ísland allt inn í 21. öldina.