Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:06]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs við umræðu um þetta frumvarp sem hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir mælti hér fyrir. Ég er reyndar ekki einn af flutningsmönnum þess en styð það heils hugar og vil að það komi hér fram. Ég held að það sé mikilvægt að við hreyfum við þessum málum og, rétt eins og kom fram í að mér fannst snarpri og góðri umræðu á milli hv. frummælanda og þeirra sem veittu andsvör við ræðu hennar, fullt tilefni til að við tökum þessa umræðu.

Ég er algerlega sammála meginefni þessa frumvarps, að við eigum að endurskoða þetta fyrirkomulag sem við höfum í dag og þau fjárframlög sem við veitum til stjórnmálaflokka til sinnar starfsemi því að mér finnst ekki sjálfsagður hlutur að við rekum félagasamtök með þeim hætti að þau séu rekin á framlögum úr ríkissjóði. Ég man eftir umræðunni um, eða tel mig muna svolítið af umræðunni um, lagabreytinguna eða lagasetninguna árið 2006 þar sem voru í sjálfu sér sjónarmið uppi sem hv. þingmaður nefndi í sinni framsögu hér sem vel gætu átt við og við höfum kannski í öllum aðalatriðum náð fram þótt ekki hafi allt tekist sem skyldi og við eigum sannarlega að endurskoða það hér.

Ég vil aftur á móti líka, þar sem fjallað er eilítið um það í greinargerðinni, ræða hvaða aðrar breytingar hafa orðið frá þeim tíma sem lögin eru samþykkt, þ.e. hvernig við höfum á þessum tíma eflt þingið sjálft og starfsemi þingsins og síðan aðstoð við þingflokka. Ég ætla að segja að af þeirri tíu ára reynslu sem ég hef nú af störfum hér á Alþingi finnst mér vera himinn og haf þar á milli í aðstoð við þingmenn og það skiptir máli líka fyrir starf stjórnmálaflokka að við höfum jafn öflugan stuðning og þingmenn hafa í dag. Einnig mætti vel ræða hversu langt við eigum að ganga í þeim efnum en ég er ekki í nokkrum vafa að það hefur eflt starf þingmannanna að aðstoð við þingflokka hefur verið efld með þeim hætti sem hefur verið gert. Hún hefur gert þingmennina sjálfstæðari gagnvart t.d. framkvæmdarvaldinu, svo ég nefni eitt dæmi, og gert okkur kleift að undirbúa mál sem við sem þingmenn flytjum hér á Alþingi með mun vandaðri hætti, ekki síður en að vinna að þingmálum sem við erum að vinna inni í nefndum.

Ég vil líka segja að meginsjónarmið mitt er svona almennt að félagasamtök séu mikilvæg og mér finnst félagasamtök einhvern veginn hafa glatað hlutverki sínu og tilgangi þegar við þurfum opinber framlög til að reka þau. Félagasamtök eiga að vera sjálfsprottin, félagasamtökin eru grasrótin sjálf. Það sem ég hef kannski meiri áhyggjur af er hvernig við virkjum fólk til þátttöku í almennri stjórnmálaumræðu og ég ætla ekki að dæma það út frá mínum stjórnmálaflokki neitt sérstaklega. Mér finnst vera mikill áhugi á stjórnmálum en áhuginn nær kannski ekki nógu langt inn í starfsemi þess sem við erum að standa í dagsdaglega, bara sem þingmenn úti í okkar kjördæmum, þar sem þetta er borið upp af tiltölulega fáu fólki. Hvaða hvata getum við haft til þess að virkja meiri áhuga, að fólk leggi sitt af mörkum? Og ég er ekki bara tala um kosningabaráttu í þessum efnum vegna þess að á Íslandi finnst mér einmitt fegurðin vera sú að það er ótrúlega auðvelt að hafa mikil áhrif á Íslandi, sérstaklega í stjórnmálum. Það er fyrst og fremst þá bara með því að mæta á fundi, taka þátt í starfi stjórnmálaflokka og fólk á að sjálfsögðu líka að velja það að standa fyrir utan stjórnmálaflokka en láta sig málin varða því það er umræðan sem verður úti í samfélaginu sem skiptir öllu máli og ekki síst fyrir okkur stjórnmálamenn.

Ég vil, virðulegi forseti, af því að ég er ekki flutningsmaður að þessu máli, taka af allan vafa um það að ég styð efnisatriði þess, að ég sleppi nú ekki að ræða bara um hagsmuni blessaðs ríkissjóðs sjálfs sem hefur meira en nóg á sinni könnu annað en að ganga endalaust þann veg að útdeila fjármunum í þessa starfsemi sem við sannarlega megum endurskoða.