Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

innheimtulög.

74. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á innheimtulögum varðandi leyfisskyldu innheimtufyrirtækja. Frumvarpið var áður lagt fram á 152. löggjafarþingi og er nú lagt fram að nýju með minni háttar breytingum til einföldunar. Flutningsmenn frumvarpsins með mér eru allir þingmenn Flokks fólksins: Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Ég ætla að byrja á því að varpa fram tveimur spurningum: Eru innheimtufyrirtæki og lögmannsstofur sami hluturinn? Stunda innheimtufyrirtæki og lögmannsstofur sams konar starfsemi? Svarið við þessum spurningum er augljóslega nei. Þarna fer fram allsendis ólík starfsemi þó að hún geti í ákveðnum tilfellum tilvikum skarast eitthvað, t.d. ef lögmannsstofur þurfa að innheimta eitthvað fyrir viðskiptavin, en það gerir þær ekki að innheimtufyrirtækjum. Það eru mörg innheimtufyrirtæki hér á landi og þá erum við ekki að tala um bankana. Bankar eru ekki beinlínis innheimtufyrirtæki þótt þeir innheimti lán. Það er nauðsynlegur fylgifiskur starfsemi þeirra en ekki kjarninn í henni. Á Íslandi eru hins vegar fjölmörg fyrirtæki sem eingöngu, eða svo til eingöngu, sinna innheimtu fyrir einstaklinga og lögaðila.

En þessi fyrirtæki sitja því miður ekki öll við sama borð. Svo merkilegt sem það er ræðst staða þeirra við borðið af því hvernig eignarhaldi þeirra er háttað. Það fer eftir því hvort eigandi þeirra er lögmaður eða ekki, eða öllu heldur hvort sá lögmaður kýs að fara að lögum um innheimtufyrirtæki eða nýtir sér þær glufur sem eru í innheimtulögum sem þessu frumvarpi er ætlað að fylla upp í.

Fyrirtæki sem fara að innheimtulögum þurfa að sækja um starfsleyfi og sæta eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Þess skal getið til að fyrirbyggja misskilning að sum þessara fyrirtækja eru reyndar í eigu lögmanna að öllu eða einhverju leyti, en ekki eru allir lögmenn jafn heiðarlegir. Sumir lögmenn sem svo til eingöngu sinna innheimtustörfum, kjósa að gera það í skjóli lögmannsréttindi sinna og komast þannig hjá því að uppfylla skilyrði hins opinbera til að fá leyfi til innheimtustarfsemi, auk þess sem þeir koma sér hjá eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Að minnsta kosti eitt af þessum leyfislausu innheimtufyrirtækjum var stórtækt í innheimtu ólöglegra smálána. Það var svo stórtækt að það var nánast rekið sem útibú fyrir erlent smálánafyrirtæki, sem þó starfaði hér á landi undir íslenskum vörumerkjum en í skjóli erlendrar kennitölu. Leyfislausa innheimtufyrirtækið gekk hart fram við innheimtuna en þegar kvartað var undan viðskiptaháttum þess voru góð ráð dýr. Þá kom í ljós að Fjármálaeftirlitið hafði enga lögsögu yfir fyrirtækinu, enda hafði það aldrei sótt um starfsleyfi né uppfyllt nokkur skilyrði innheimtulaga um sérhæfð innheimtufyrirtæki. Fyrirtækið var rekið sem lögmannsstofa þótt það sinnti eingöngu innheimtu smálána og var líklega stofnað í þeim eina tilgangi að innheimta smálán hinna íslensku vörumerkja erlenda fyrirtækisins.

Árið 2014 sendu Hagsmunasamtök heimilanna kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna þessara leyfislausu innheimtufyrirtækja sem ég mun koma nánar að á eftir. Þegar Neytendasamtökin fóru svo árið 2019 að vinna í málum vegna smálána reyndu þau að kvarta til Lögmannafélagsins, sem er eini aðilinn sem þessi leyfislausu innheimtufyrirtæki bera ábyrgð gagnvart. Í fyrsta lagi fengu Neytendasamtökin ekki að kvarta því þau voru ekki aðilar máls. Þetta er nokkuð sem bæði þau og Hagsmunasamtök heimilanna hafa oft rekið sig á. Þarna er nauðsynlegt að bæta löggjöfina og mun ég flytja frumvarp um réttarúrræði neytendasamtaka innan skamms hér á þinginu sem er ætlað að bæta úr því. Dæmið sem hér fylgir sýnir fram á nauðsyn þess.

Samtökin fundu eitt af fórnarlömbum fyrirtækisins en var þá bent á að kvörtunin yrði að beinast að lögfræðingnum sem átti fyrirtækið persónulega en ekki fyrirtæki hans. Úrskurðarnefnd lögmanna skilaði úrskurði þar sem hakað var í nokkur box á áður skilgreindu eyðublaði, en taldi þó að háttsemi lögmannsins hefði verið aðfinnsluverð. Eigandi leyfislausa fyrirtækisins brást við með því að stefna þeim sem var skrifaður fyrir kvörtuninni. Kannski má segja að hann eigi þann rétt til að verja sig, en það eiga fórnarlömb hans líka. Með því að sækja ekki um tilskilin leyfi var eigandi þessa leyfislausa innheimtufyrirtækis í raun búinn að svipta þau möguleikanum á því að leita réttar síns með því að senda kvörtun til Fjármálaeftirlitsins sem á að taka á málum sem þessum.

Árið 2014 sendu Hagsmunasamtök heimilanna kvörtun til umboðsmanns Alþingis yfir þeim annmörkum á lögum sem gerðu innheimtufyrirtækjum kleift að starfa án starfsleyfis. Engu að síður starfa mörg slík fyrirtæki enn í dag án leyfa og án eftirlits Fjármálaeftirlitsins, í skjóli þess að eigendur þeirra séu lögmenn.

Frumvarpið sem ég mæli fyrir á rætur að rekja til þess álits sem umboðsmaður Alþingis birti vegna kvörtunar Hagsmunasamtaka heimilanna yfir skorti á eftirliti með innheimtustarfsemi strax árið 2014. Við meðferð málsins kom í ljós að nokkur fyrirtæki sem stunduðu slíka starfsemi hefðu starfað án eftirlits þar sem óljóst væri hvort þau féllu undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins eða Lögmannafélags Íslands, með þeirri afleiðingu að hvorugur þeirra eftirlitsaðila hafði í raun eftirlit með þeim og var því mælst til úrbóta á lögum þar að lútandi.

Með lögum nr. 55/2018 voru gerðar breytingar á innheimtulögum sem ætlað var að bregðast við niðurstöðum umboðsmanns Alþingis í fyrrnefndu máli en þau gengu í raun í öfuga átt. Innheimtulögunum var breytt þannig að auk lögmanna og lögmannsstofa mættu lögaðilar sem eru að öllu leyti í eigu eins eða fleiri lögmanna eða lögmannsstofa stunda innheimtu án innheimtuleyfis. Maður hlýtur að spyrja sig af hverju löggjafinn ákvað að fara þessa leið. Með þessari breytingu var í raun farið þvert gegn tilefni þeirra umkvartana sem málið átti rætur að rekja til. Í stað þess að skerpa á leyfisskyldu voru undanþágur frá henni víkkaðar út án viðhlítandi rökstuðnings. Enn er sá annmarki til staðar að innheimtufyrirtæki í eigu lögmanna lúta hvorki eftirliti Fjármálaeftirlitsins né Lögmannafélags Íslands, þar sem eingöngu lögmenn eru í félagatali þess en engin félög. Jafnframt eru viðurlagaheimildir úrskurðarnefndar lögmanna takmörkunum háðar.

Síðan þessi lagabreyting var gerð árið 2018 hafa komið fram ábendingar um að hún hafi ekki reynst eins og ætlast var til. Svo virðist sem enn starfi innheimtufyrirtæki án eftirlits eða óljóst sé hvernig eftirliti er háttað og breytingin hafi því ekki tekið af öll tvímæli um það. Við samningu frumvarps þessa hefur verið tekið mið af slíkum ábendingum. Það að skipa innheimtuaðilum í tvo hópa í innheimtulögum, annars vegar þá sem eru starfsleyfisskyldir og falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og hins vegar tiltekna aðila sem eru undanþegnir leyfisskyldu, eins og t.d. opinbera aðila, fjármálafyrirtæki, lögmenn og lögmannsstofur, er í sjálfu sér ekki óeðlilegt í ljósi þess að fjármálafyrirtæki eru, svo dæmi sé tekið, þegar undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins en Lögmannafélag Íslands hefur eftirlit með störfum lögmanna. Þannig má ætla að sérstaða lögmanna samkvæmt innheimtulögum stafi af því að innheimta á kröfum skjólstæðinga sé oft liður í lögmannsstörfum sem má skilgreina sem aukastarf með aðalstarfseminni, þ.e. lögmannsþjónustu.

Eftir sem áður hefur verið bent á að það sé óeðlilegt og geti skapað óvissu og glufur í eftirliti ef fyrirtæki sem hafa innheimtu að meginstarfsemi sinni geta sniðgengið starfsleyfisskyldu með því einu að skráðir eigendur þeirra séu lögmenn. Jafnframt er það til þess fallið að raska samkeppnisstöðu innheimtuaðila með starfsleyfi sem uppfylla öll skilyrði þess, að önnur fyrirtæki á sama markaði geti komið sér hjá leyfisskyldu.

Með frumvarpi þessu er því lagt til að skýrari aðgreining verði gerð á milli fyrirtækja með lögmannsþjónustu sem aðalstarfsemi og fyrirtækja sem hafa innheimtu fyrir aðra sem aðalstarfsemi og tekin verði af öll tvímæli um starfsleyfisskyldu hinna síðarnefndu án tillits til eignarhalds. Með hliðsjón af ábendingum frá Hagsmunasamtökum heimilanna er einnig lagt til að skerpt verði á upplýsingaskyldu innheimtuaðila um réttarúrræði neytenda.

Samkvæmt könnun sem gerð var fyrir starfshóp Hvítbókar um framtíðarsýn á fjármálakerfið vissu 62,9% aðspurðra ekki hvert þau myndu leita út fyrir viðskiptabanka vegna ágreinings við bankann eða kvörtunar. Það bendir til þess að almenn vitund um slík úrræði sé lítil meðal neytenda og því ástæða til að gera úrbætur þar að lútandi.

Ákvæði um skyldu til að hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur rís milli atvinnurekenda og neytenda koma m.a. fram í lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um neytendalán, lögum um fasteignalán til neytenda, lögum um útgáfu og meðferð rafeyris og lögum um greiðsluþjónustu.

Með hliðsjón af markmiðum EES-samningsins um skilvirka neytendavernd er því lagt til að við 6. gr. innheimtulaga um góða innheimtuhætti bætist ný málsgrein sem skyldar innheimtuaðila til að hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur rís milli innheimtuaðila og skuldara.

Meginreglan hlýtur að vera sú að samkeppnisstaða fyrirtækja skuli vera jöfn. Það er hins vegar augljóst að ekki er jafnræði eða jöfn samkeppnisstaða milli þeirra fyrirtækja sem uppfylla öll lög og skyldur og hinna sem kjósa að gera það ekki. Helstu rökin fyrir því að samþykkja þetta frumvarp eru að við eigum öll að vera jöfn fyrir lögum og enginn á að komast hjá því að uppfylla lögfest skilyrði fyrir starfsemi sinni með því að skáka í skjóli blekkinga. Þetta er einnig spurning um neytendavernd, því ef innheimtuaðili þarf ekki að lúta eftirliti eða skilyrðum þar til bærra aðila aukast líkurnar á því að lög sem eiga að vernda neytendur séu brotin, auk þess sem neytandinn getur ekki leitað neitt með umkvörtunarefni sín. Með frumvarpinu er því lagt til að undanþága lögaðila í eigu lögmanna og lögmannsstofa sem ekki eru eiginlegar lögmannsstofur heldur hrein innheimtufyrirtæki, verði felld brott þannig að öll slík fyrirtæki verði framvegis starfsleyfisskyld án tillits til eigenda þeirra. Eftir sem áður mega þó lögmenn og lögmannsstofur stunda innheimtustarfsemi án sérstaks starfsleyfis, enda sé það tilfallandi liður í lögmannsstörfum þeirra.

Ég hvet þingmenn til að leggjast á eitt um að veita frumvarpi þessu brautargengi.