Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

Mikil notkun þunglyndislyfja á Íslandi í alþjóðlegu samhengi.

[16:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur fyrir þessa umræðu hér um notkun þunglyndislyfja og þá þróun, geðrækt, geðheilsu og lyfjanotkun á þessu sviði auk áhrifa faraldursins. Mér fannst hv. þingmaður vera með góða framsögu og dró mjög vel fram að lausnirnar eru ekki einsleitar í þessu. Það þurfa að vera fjölbreytt úrræði og fordómalaus nálgun, það er kjarninn í því sem ég myndi svara, og einmitt líka að afla gagna til að fara markvissar í þennan málaflokk.

Hv. þingmaður kom inn á fjölmargar tölur og í nýjustu skýrslu frá OECD, Health at a Glance Europe, frá 2022 kemur fram að það varð tvöföldun á hlutfalli ungmenna sem greindu frá einkennum þunglyndis í fjölmörgum löndum Evrópu, eins og Belgíu, Eistlandi, Frakklandi, Svíþjóð og Noregi. Þetta er þróun sem við verðum að bregðast við og þetta er mjög ofarlega á dagskrá hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og þeim þjóðum sem við erum að vinna með, m.a. í norrænu samstarfi. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni jókst tíðni þunglyndis og kvíða um 25% á heimsvísu í kjölfar heimsfaraldurs og þá sérstaklega, eins og kom fram hjá hv. málshefjanda, hjá ungu fólki og konum.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis varðandi annars vegar notkun þunglyndislyfja og hins vegar róandi og kvíðastillandi lyfja þá fengu 47 af hverjum 1.000 börnum á aldrinum 0–17 ára afgreidd þunglyndislyf árið 2022 samanborið við 45,2 börn af hverjum 1.000 börnum árið 2021 og 39,4 börn af hverjum 1.000 börnum árið 2020. Ég dreg þetta fram hér sem sýnir að þróunin er bara í öllu til verri vegar. Það hvetur mann auðvitað til að bregðast enn frekar við þessari þróun. Notkun lyfja í flokki róandi og kvíðastillandi lyfja er hins vegar óveruleg meðal barna hérlendis, 1,6 af hverjum 1.000 börnum fengu slík lyf árið 2022 en 1,9 af hverjum 1.000 börnum árin 2020 og 2021. Þarna er ekki þessa sömu þróun að finna, sem er vel.

Síðan þarf maður að kanna af hverju það er svona í þessum flokki. Í gagnagrunni Nomesko, norrænni nefnd um heilbrigðisupplýsingar, er að finna upplýsingar um notkun þunglyndislyfja sem segja svipaða sögu og ég var að rekja hér. Þar kemur hins vegar mjög skýrt fram að Ísland liggur hæst í notkun þessara lyfja í þeim samanburði, eins og kom fram hér.

Klínískar leiðbeiningar benda á gagnreynda samtalsmeðferð sem fyrsta val við vægu til miðlungs alvarlegu þunglyndi og kvíða. Þunglyndis- og kvíðalyf ættu því ekki að vera fyrsta úrræði þegar einstaklingur greinist með vægt til miðlungs alvarlegt þunglyndi eða kvíða. Það er því full ástæða til að staldra við og rýna þetta mjög vel. Eins og hv. málshefjandi kom inn á megum við ekki draga of þungar ályktanir heldur verðum við að skoða gögnin og fara markvissar í þetta. Við þurfum að fara í gegnum það hvort við erum að bjóða upp á fjölbreytt úrræði til að takast á við þunglyndi og kvíða barna og unglinga. Það er auðvitað búið að gera fjölmargt.

Ég vil nú því til haga að mér finnast fordómarnir vera að minnka í allri þessari umræðu en ég er kannski litaður af þeirri umræðu sem ég er vanur hér á Alþingi og ég er sannfærður um að umræðan verður á þann veg hér. Við þurfum einnig að skoða hvernig við erum að ná utan um aðra hluti eins og greiningar og vanda sem getur valdið kvíða og þunglyndi. Það þarf í því samhengi að huga að lausnum sem liggja þvert á velferðar- og skólakerfi. Það er mikilvægt að nálgast þetta heildrænt og hafa hugfast að góð geðheilsa og líðan byggist á færni og þekkingu, þekkingu á tilfinningum og færni í því að takast á við þær, þekkingu á eigin styrkleikum og veikleikum og færni í því að nýta þá sem best, þekkingu og skilning á öðru fólki og ég gæti haldið lengi áfram að telja. En þetta er það sem ég er að vísa í þegar ég er að tala um að taka þetta heildrænt, þvert á kerfin okkar.

Þegar svona stór mál eru undir þá er frá miklu að segja en ég verð, hæstv. forseti, að fá að halda áfram þegar ég fæ þær tvær mínútur sem ég á eftir hér í lokin og mun hlusta með andakt á þær ræður sem fara hér á eftir.