Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hlutverk forseta Alþingis er að tryggja að störf Alþingis megi fara fram eins og þingsköp segja. Í 49. gr. þingskapalaga er fjallað um eftirlitshlutverk Alþingis sem er önnur af stoðum starfa okkar hér. Hlutverk þingmanna við að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu er mjög mikilvægt og ekki síður mikilvægt en það að setja lög. Þetta hlutverk þingmanna fer þannig fram að þingmenn leggja fram fyrirspurnir, spyrja spurninga, kalla eftir gögnum o.s.frv. Það að nú sé rekið dómsmál fyrir héraðsdómi og mögulega öðrum dómstólum hefur ekkert að gera með greinargerð setts ríkisendurskoðanda enda var þeirri greinargerð skilað inn fyrir nokkrum árum til þingsins. (Forseti hringir.) Settur ríkisendurskoðandi kom og gaf skýrslu fyrir héraðsdómi sem tók nærri klukkutíma, sú skýrslugjöf, og var í opnu þinghaldi. Það er ekkert leyndarmál lengur nema bara hjá forseta sem er að koma í veg fyrir eftirlitshlutverk Alþingis og það er miður.