Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[19:49]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Það er ekki í verkahring ríkisendurskoðanda að leiða til lykta lögfræðileg úrlausnarefni um söluna á Íslandsbanka og í skýrslunni sem við ræðum hér í dag er ekki fjallað um það hvort ráðherra og Bankasýslan hafi fylgt að öllu leyti til að mynda meginreglum stjórnsýsluréttar. Það er ekki fjallað um það hvort ráðherra hafi lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðunum sínum við sölu bankans, hvort hann hafi gætt að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, hvort hann hafi gætt að reglum um sérstakt hæfi og jafnræði og hvort hann hafi rækt yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur sínar gagnvart Bankasýslunni með fullnægjandi hætti. Það hefur alltaf legið fyrir að þessi atriði voru ekki undir í úttektarvinnu Ríkisendurskoðunar. Þetta vissi auðvitað hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þegar hann átti sjálfur frumkvæði að því að koma málinu í þennan farveg með beiðni sinni til embættisins.

Það segir sig auðvitað sjálft að Ríkisendurskoðun skoðar og fjallar um þau atriði sem falla að starfssviði og eftirlitshlutverki þeirrar stofnunar. Raunar kom það skýrt fram í máli ríkisendurskoðanda á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar strax á fyrstu stigum þessa máls að hann hefði þurft að gæta þess sérstaklega að ganga ekki inn á starfssvið umboðsmanns Alþingis, sem er sá eftirlitsaðili sem hefur verið falið að gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að stjórnsýslan fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur, og er auðvitað sá eftirlitsaðili Alþingis sem hefur margsinnis tekið fyrir álitaefni um meðferð ráðherra á valdi, spurningar um sérstakt hæfi, yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur o.s.frv.

Eins og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis til 20 ára, bendir á þá fól úttekt Ríkisendurskoðunar ekki í sér neitt mat á slíkum þáttum og orð eins og stjórnsýslulög, upplýsingalög, meginreglur stjórnsýsluréttar, málefnaleg sjónarmið, jafnræðisregla og sérstakt hæfi, koma varla fyrir í meginefni skýrslunnar. Einhver þeirra koma hugsanlega rétt svo fyrir í framhjáhlaupi en varla einu sinni það. Af því að hér hefur verið rætt um þá spurningu hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi hugsanlega brostið hæfi til að selja föður sínum eignarhlut, hvort það sé kannski spurning sem megi a.m.k. athuga og hvort það sé að öllu leyti í samræmi við reglur um sérstakt hæfi, þá vil ég líka benda á að spurningar um hæfi eða vanhæfi stjórnvaldshafa, og þetta er bein tilvitnun í ríkisendurskoðanda sjálfan úr öðru máli, eru „lögfræðilegt álitaefni, sem löggjafinn hefur alls ekki ætlað Ríkisendurskoðun að leysa úr“.

Ef ég skil rétt það sem gekk á innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eru fulltrúar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ekki aðeins á móti því að skipuð verði rannsóknarnefnd um söluna á Íslandsbanka heldur líka að aflað sé lögfræðiálits eða álita til að kanna hvort stjórnsýslulögum og meginreglum stjórnsýsluréttar hafi verið fylgt. Fyrir vikið er þessum stóru spurningum um hvort undirbúningur og framkvæmd sölumeðferðarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við lög enn þá ósvarað. Það er bara þannig. Það hefur einfaldlega engin lögfræðileg greining á þessu farið fram, og brandari dagsins er kannski sá að samt finnst stjórnarliðum það alveg gríðarlega veigamikil og mikilvæg niðurstaða, eins og það sé einhvers konar sýknudómur yfir vinnubrögðum fjármálaráðherra og Bankasýslunnar, að ríkisendurskoðandi, sem sjálfur segist ekki hafa kannað og skorið úr um lögfræðileg álitaefni, sem var ekki til þess bær og greinir frá því sjálfur — það kemur líka fram í afmörkunarkafla skýrslunnar um hvað hann skoðaði — að sá aðili vilji ekki nota orðið lögbrot um það sem fór fram og treysti sér ekki til þess, aðilinn sem einmitt sagðist ekki ætla að kanna eða skera úr um það hvort einhver lögbrot hefðu verið framin.

Ég vil samt segja að í skýrslunni fjallar ríkisendurskoðandi með greinargóðum hætti um ýmis frávik frá mjög matskenndum lagaákvæðum. Auðvitað hrópa heiðvirðir og vandaðir embættismenn ekki lögbrot þótt þeir verði kannski varir við frávik frá mjög matskenndum lagaákvæðum, þannig er það nú bara. En ég verð að viðurkenna að eftir að hafa lesið skýrslu Ríkisendurskoðunar og athugasemdir Bankasýslunnar — sem eru allrar athygli verðar og maður hefði kannski viljað sjá einhverja meiri umfjöllun um, sérstaklega í nefndaráliti meiri hlutans — og loks meirihlutaálitið sjálft, þá er ég bara eitt stórt spurningarmerki. Það eru svo margar stórar og veigamiklar spurningar sem engin svör hafa fengist við. Ég held að restin af þessari ræðu verði bara í spurnarformi. Ég veit ekki hve mörgum spurningum ég kem fyrir, mér sýnist ég hafa fjórar mínútur þannig að ég verð að tala hratt.

Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar liggur ekki fyrir hvernig viðmiðin sem Bankasýslan lagði til við ráðherra yrðu höfð að leiðarljósi þegar úthlutun var beitt. Var samt fullnægjandi lagastoð fyrir því að byggja á þessum viðmiðum og víkja þá jafnvel frá meginreglunni um að leita hæsta verðs og var gætt að sérstöku hæfi þeirra sem komu að undirbúningi og ákvarðanatöku um söluna og ef svo er, hvernig var það gert? Var það ekki gert fyrir fram, í ljósi þess að ráðherra var með yfirlýsingar um það í útvarpinu að hann hefði sérstaklega beðið föður sinn og sitt fólk um að kaupa ekki? Það gefur til kynna að hann hafi áttað sig á því sjálfur að það yrði ekki heppilegt ef sú staða kæmi upp. Var með einhverjum hætti gætt að þessu fyrir fram?

Hvernig uppfyllti ráðherra rannsóknarskyldu sína þegar hann tók ákvörðun um söluna? Gekk hann úr skugga um að rökstudda matið frá Bankasýslunni uppfyllti allar lagalegar kröfur út frá reglum stjórnsýsluréttar og lögum um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum? Hvernig gat hann tekið upplýsta ákvörðun um söluna á grundvelli rökstudds mats sem Ríkisendurskoðun bendir á að innihélt engan eiginlegan rökstuðning fyrir ákvörðun lokaverðs eða hvernig ákvörðun um það hafði áhrif á samsetningu kaupendahópsins? Hvernig gat ráðherra tekið upplýsta ákvörðun og gætt að rannsóknarskyldu sinni þegar ráðuneytið hans fékk ekki nákvæmar upplýsingar um endanlega stöðu tilboðabókarinnar, eins og Ríkisendurskoðun fjallar um, né hvernig það átti að beita þessum viðmiðum sem ég minntist á áðan, sem kynnt voru í rökstudda matinu?

Uppfyllti Bankasýslan rannsóknarskyldur við undirbúning og framkvæmd sölumeðferðarinnar? Ég spyr m.a. vegna þess að það liggur fyrir að Bankasýslan lagði blessun sína yfir tilboð frá eignastýringardeildum fjármálafyrirtækja án þess að nöfn þeirra aðila sem raunverulega voru að baki kaupunum væru gefin upp. Og fyrst Bankasýsla ríkisins kannaði ekki hverjir stæðu að baki þessum tilboðum, hvernig gat hún þá metið hvort úthlutun til aðila uppfyllti markmiðin sem koma fram í þessu rökstudda mati til ráðherra? Hvernig gat þá Bankasýslan metið áhrifin af sölunni með tilliti til annarra markmiða heldur en þessarar forgangsmeginreglu um hagkvæmni og hæsta verð?

Samkvæmt skýrslunni var flokkun fjárfesta í hæfa fjárfesta á forræði hvers fjármálafyrirtækis fyrir sig. Fyrst sú framkvæmd var ekki samræmd og mismunandi viðmiðum var beitt, eins og Ríkisendurskoðun bendir á, hvernig getum við fullvissað okkur um að jafnræðis hafi raunverulega verið gætt? Eigum við bara að vona það besta? Ríkisendurskoðun bendir líka á að skráningu og skjalfestingu viðmiða og ákvarðana hafi verið ábótavant. Var þá ekki farið á svig við skráningarskyldu upplýsingalaga, samanber 27. gr. þeirra laga? Voru þeir stjórnvaldshafar sem stóðu að þessari sölu ekki bundnir af þessu ákvæði upplýsingalaga? Er embættismönnum og starfsmönnum sem sýsla með og selja ríkiseignir heimilt að þiggja alls kyns gjafir frá aðilum sem eiga hagsmuna að gæta og eigum við að túlka þögn ríkisendurskoðanda um þetta sem svo að hann sé að leggja blessun sína yfir það? Er ekkert athugavert við þetta? Verður þessi háttur áfram hafður á, á vakt hæstv. fjármálaráðherra?

Þegar ráðherra veitti Bankasýslunni umboð til að ljúka sölumeðferð í samræmi við tillögu hans, leysti þetta þá ráðherra undan þeim kröfum sem hvíla á honum vegna reglna stjórnsýsluréttarins um sérstakt hæfi ráðherra? Nú er mælt fyrir um það í 4. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, að þegar tilboð í eignarhlut liggi fyrir skuli Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim og ráðherra svo taka ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað. Hvers vegna ætli sé mælt fyrir um þetta? Það skyldi þó ekki einmitt vera til þess að ráðherra geti lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðun sinni um að samþykkja eða hafna tilboðum, til að hann geti mátað þessar grunnupplýsingar við sína eigin greinargerð sem hann leggur fyrir Alþingi og til að hann geti mátað þær við meginreglurnar sem er kveðið á um í 3. gr. laganna? Er þetta ekki einmitt forsenda þess að ráðherra geti rækt skyldur sínar við sölu á banka og tekið upplýsta ákvörðun? Eins og ríkisendurskoðandi bendir á þá ber ráðherra ábyrgð á því að söluferlið sé í samræmi við þær forsendur og þau skilyrði sem lögð voru til grundvallar í greinargerð hans. (Forseti hringir.) Hvernig gat ráðherrann rækt þessar skyldur án þess að búa yfir raunverulega rökstuddu mati og án þess að hirða um að afla þeirra upplýsinga (Forseti hringir.) sem lög gera ráð fyrir að hann byggi ákvörðun sína á?

Þetta er aðeins hluti af þeim ótal spurningum sem ég tel að sé fullkomlega ósvarað, (Forseti hringir.) enda liggur ekki fyrir nein lögfræðileg greining á því sem gekk á. Alþingi verður að bæta úr því og skipa rannsóknarnefnd. Þetta er ekki sérstaklega flókið.