Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

svör við fyrirspurnum.

[15:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Aftur kem ég hingað upp til að biðja forseta um aðstoð vegna svars hæstv. menningar og viðskiptaráðherra við einfaldri fyrirspurn um viðbrögð við vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra og sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn ráðuneyta. Fyrirspurnin var einföld: Hefur ráðuneytið gert samning um sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn síðastliðin fimm ár? Ef svo er, hvert var tilefnið slíks samnings eða samninga og hver var kostnaður af honum eða þeim? Svör óskuðu sundurliðuð eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra. Nú er það svo að ráðuneytinu var skipt upp en undir umræddu ráðuneyti eru enn þá menningarmál og því var óskað eftir því sérstaklega að hæstv. ráðherra myndi svara varðandi þau málefnasvið sem eru þar undir. Hæstv. ráðherra neitaði að svara þessari spurningu og sagði að ráðuneytið væri eingöngu eins árs gamalt en svaraði ekki fyrir síðustu fimm ár. (Forseti hringir.) Ég vona að við eigum ekki að þurfa að fá viðlíka svör úr öðrum ráðuneytum sem hafa tekið á móti þeim málefnasviðum sem voru í mennta- og menningarmálaráðuneytinu (Forseti hringir.) á síðasta kjörtímabili. En þetta er auðvitað til marks um hversu Stjórnarráðið er sundrað eftir uppskiptingu ráðuneyta, (Forseti hringir.) fjölgun ráðuneyta í þágu ríkisstjórnarinnar einnar en ekki í þágu almennings.