Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:25]
Horfa

Flm. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Fyrst vil ég byrja á að segja, vegna fyrri spurningar um af hverju það eru bara þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem standa að þessari þingsályktunartillögu, að það er jú svo, og ég veit að hv. þingmaður og aðrir hv. þingmenn hér í salnum þekkja alveg þá leið sem stundum er farin til þess að vekja athygli á pólitískum áherslum, að gjarnan er það bara hlutaðeigandi þingflokkur sem flytur mál. Það var bara okkar val í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði að leggja þetta mál fram sem þingsályktunartillögu okkar. Varðandi væntingar til innheimtu af gjaldinu þá er hugmyndin með þessu uppleggi og þessari tillögu sú að við sameinumst og ákveðum það sameiginlega að þegar um takmarkaðar auðlindir og takmörkuð gæði er að ræða þá sé algjörlega sjálfsagt mál að greitt sé fyrir afnot í formi auðlindagjalds. Ég hygg að ég og hv. þingmaður séum í raun sammála um það.