Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:35]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fellst á það að við orkuöflun almennt eða auðlindanýtingu þá þurfum við að huga að því að þar sem áhrifanna af auðlindanýtingunni gætir hvað mest, í heimahéraði, ekki endilega afmarkað við sveitarfélag heldur nærumhverfi í þessu tilviki vindorkugarðsins, að þar eigi hin beina hlutdeild sem er tekin af þessu að vera hvað mest, í nærsamfélaginu, ekki að renna til ríkissjóðs eða annað. En ég vil að við höfum í huga og ég vil spyrja hv. þingmann að því hvaða áhrif þetta getur haft önnur, t.d. á hærra raforkuverð, samkeppnisstöðu þjóðar, og hvort hann sé ekki sammála því að það geti verið visst afgjald til þjóðarinnar ef þetta skapar fleiri störf, sem sagt auðlindanýtingin, og þar á meðal skattspor — hvort það sé ekki hluti af hlutdeild þjóðarinnar í auðlindanýtingunni.