Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:36]
Horfa

Flm. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir spurninguna. Jú, sannarlega held ég að það geti verið og að einhverju leyti erum við kannski með þá mynd í dag. Við getum til að mynda fært fyrir því ágætis rök að vegna þess að orkuframleiðsla er að alstærstu leyti eða að mestu leyti í höndum opinbers fyrirtækis sem við eigum saman skili arðurinn af sölu á þeirri orku sem framleidd er sér að einhverju leyti inn í sameiginlega sjóði, sem er svo hægt að útdeila aftur með einhverjum sanngjörnum hætti með þeim tækjum og tólum sem við höfum, sem hugsanlega þyrfti að skerpa á til þess að taka tillit til næraðstæðna hverju sinni.

En ég hef líka haft áhyggjur af því, og mér hefur nú fundist sum dæmin sýna það, að það skapast líka ákveðinn freistnivandi — og ég veit að það stuðar e.t.v. marga hv. þingmenn, alla vega viðmælendur mína í þessu máli oft, að nota orðið freistnivandi — að ráðast í orkuöflun í þágu uppbyggingar einhvers konar orkufrekrar og/eða minni, með tilheyrandi áhrifum á lífríki og náttúru, án þess endilega að það skili svo og svo miklum krónum til baka í sveitarsjóð en hins vegar með stórkostlegum áhrifum á umhverfið.