Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:41]
Horfa

Flm. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við verðum þá bara ósammála um það, ég og hv. þingmaður, hvort vindurinn eigi að vera þjóðareign eða ekki. Ég vísa kannski til þess nýlega dæmis, með samþykkt laga í fyrra um fjarskiptatíðnir sem eru skilgreindar í lögum um fjarskipti sem auðlind í þjóðareign, sem einhvers sem mætti horfa til og er ákveðin samlíking með þeim tíðnum og þá vindinum, lægðóttum eður ei.

Varðandi seinni spurninguna þá held ég að hv. þingmaður sé að vísa í tvær tilraunavindrellur sem hafa verið reistar á svokölluðu Hafi fyrir innan Búrfell sem eru í rauninni undanfari og ákveðin rannsókn af hálfu Landsvirkjunar sem hefur hins vegar fengið, með afgreiðslu á þingsályktunartillögu um rammaáætlun síðastliðið vor, heimild til að skoða nýtingu á tveimur vindorkuvirkjunum, annars vegar við Búrfell, þarna á þessu svæði, og hins vegar við Blöndu; hugmyndir sem eru líklega einna lengst komnar af þeim hugmyndum sem eru þó gífurlega margar vítt og breitt um landið.