Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:42]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Það var auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að við erum ekki sammála um þetta. Ég verð að segja það að mér datt aldrei í hug að menn myndu ganga svona langt í að mynda eignarrétt. Ég hugsaði bara með mér: Ekki einu sinni Lenín eða Maó hefði dottið þetta í hug. (Gripið fram í: Þetta er nú hrós.) Já. Þetta er eitthvert undarlegasta dæmi sem ég hef séð.

En auðvitað veit ég alveg hver tilgangurinn er. Tilgangurinn er að tryggja það að ef einhverjir fari í raforkuframleiðslu þá fái ríkið eða þjóðin einhvern arð af því. En við þurfum ekki að búa til einhvern eignarrétt til þess. Það er hinn útbreiddi misskilningur. Við skattleggjum bara raforkuframleiðslu eins og okkur sýnist en það þarf ekki alltaf að búa til eignarrétt. Einhver vindur sem fer yfir landamæri, hann fer hvert sem er eins og fuglinn fljúgandi, eins og farfuglarnir. Nú eru menn orðnir svo uppteknir af því að gera allt að þjóðareign, einhverjum eignarrétti sem enginn skilur eiginlega almennilega hver er. Hvað er þjóðareign? Ef það er þjóðareign eða sameign þjóðarinnar þá er það auðvitað ekki sameign í eiginlegum skilningi. Ég veit ekki hver merkingin er. Ef þetta er sameign í eiginlegum skilningi geta menn auðvitað slitið henni. En auðvitað er þetta ekki sameign. Þetta er bara eitthvert orðskrípi sem var fundið upp, var fundið upp við lagasetningu um stjórn fiskveiða til að tryggja að þeir sem höfðu veitt mynduðu ekki eignarrétt. Það verður auðvitað ekki þannig að þeir sem nýta hér vindinn myndi einhvern eignarrétt á vindinum. Hann fer bara hvert sem honum sýnist. Það er alveg óþarfi þess vegna að hafa þetta og í raun og veru er alveg óþarft að búa til einhverja sameign út úr þessu. Við verðum bara að tryggja það, þetta snýst allt um það, að í þessum atvinnurekstri eða ef við ætlum að veita leyfi til raforkuframleiðslu — það er ekkert sjálfgefið að menn fái það — þá segjum við, við þá sem fá að nýta vindinn og framleiða rafmagn, að við skattleggjum þá svona. Við getum kallað það gjald, alveg sama hvað skatturinn heitir. Ég veit ekki til þess að nokkurri annarri þjóð hafi dottið þetta í hug, að gera vindinn eða sólarljósið eða hvað eina að einhverri þjóðareign eða sameign þjóðar. Ég held að þetta sé bara hættuleg þróun. Ég er líka að velta því fyrir mér að menn nota alltaf hérna hugtakið einkaeignarréttur, sem ég hef aldrei almennilega skilið hvað er. Eignarréttur er bara eignarréttur, einhver á hann. Það getur verið ríkið. Ef þetta er sameign þjóðarinnar þá getur það verið sameign í eiginlegum skilningi eins og menn eru að tala um að gera með Íslandsbanka, Íslandsbankahlutinn, þannig að allir fái sinn hlut og eigi bankann saman, allir landsmenn. En þá geta menn líka selt sinn hlut eða slitið sinni sameign.

Þetta eru mikilvæg atriði, held ég, í þessari umræðu. Ég fékk eiginlega bara hroll áðan þegar ég heyrði að fulltrúi Samfylkingarinnar væri bara sáttur við þessa þingsályktunartillögu og fannst hún hið besta mál. Þetta er alveg hræðilegt. Ég vil bara fá að nýta vindinn í garðinum mínum eða á sumarbústaðalandinu mínu eins og mér sýnist án þess að hafa það á tilfinningunni að ég sé að nýta eign einhvers annars. Ég held að menn hér á þingi hljóti að sjá fáránleikann í þessari þingsályktunartillögu. Þess vegna fékk ég bara smásvima þegar ég sá að fulltrúi Samfylkingarinnar var sammála þessu og fannst þetta hin besta þingsályktunartillaga. Ég vona að Píratar séu ekki þar líka. Þá líður yfir mig hérna. Ekki viljum við það.

Þó að ég sé auðvitað sérkennileg blanda af íhaldsmanni og frjálshyggjumanni þá er ég alveg sammála því að í öllum atvinnurekstri, allri framleiðslu, er eðlilegt að borga skatta. Svo getur okkur greint á um það hvað er skynsamleg prósenta á hverjum tíma og það getur oft farið eftir aðstæðum. Gott og vel. En auðvitað eiga allir að gera það og öll eignayfirfærsla á að vera skattlögð líka. Ég er alveg sammála því. Ég er enginn andstæðingur þess að innheimta skatta. Þetta er nú samt okkar þjóð og þetta eru okkar skyldur sem við höfum gagnvart þjóðinni og það þarf að fjármagna það, það er ekkert vandamál af minni hálfu í því, bara alls ekkert vandamál. En ég hef alltaf á tilfinningunni þegar svona mál kemur upp, að reyna að búa til einhvern eignarrétt á hlutunum, þá torveldar það mönnum allt frumkvæði, nýtingu á hlutum, að búa til verðmæti vegna þess að það er alltaf eitthvert ríkisvald. En ég segi bara við ykkur hér, ágætu hv. þingmenn, að við getum á grundvelli fullveldisréttar þessarar þjóðar skattlagt raforkuframleiðslu eins og aðra framleiðslu. Við getum skattlagt einhverja framleiðslu úr sólarljósinu. Við getum skattlagt hvað sem er. Við getum skattlagt veiðar á villtum fuglum. Við getum skattlagt fiskveiðarnar, eins og við gerum nú heldur betur. En við þurfum ekki að búa til einhvern óskapnað sem heitir sameign þjóðarinnar eða auðlindir í þjóðareign. Það er alger óþarfi. Og með því að gera það þá held ég að við séum að skapa óþarfa mikið vesen, vandkvæði og drögum eiginlega alveg máttinn úr okkur öllum.