Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:52]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú bara þannig með vindinn, ólíkt kannski fiskveiðiauðlindinni, að vindurinn er nánast ótakmörkuð auðlind. Við þurfum ekki að binda einhvern einkarétt viðkomandi eða fámenns hóps til að nýta hann eins og með sjávarauðlindina. Ég segi bara: Ég er maður hóflegrar skattheimtu vegna þess að ég þykist vita það að ef hún er hófleg þá verður meiri kraftur, við verðum samkeppnishæfari og við fáum á endanum meiri arð með því heldur en hærri sköttum. Þetta er auðvitað munurinn á okkur þingmönnunum. Ég horfi svolítið á skattsporið. Hvað með öflugu fyrirtækin, eru þau samkeppnishæf, hafa þau möguleika til útflutnings o.s.frv.? En ekki að um leið og einhver starfsemi er komin á legg þá bara hæsti skattur og fyrirtækið getur varla fjárfest af því að allt fer í ríkissjóð og það stækkar aldrei og verður ekki öflugra.

Þetta er auðvitað bara ólík sýn. Ég geri mér grein fyrir því að þegar menn eru að byrja þá erum við oft með lægri skattheimtu til að leyfa mönnum að komast á fæturna í sínum atvinnurekstri. Svo styrkist það og þetta er orðið öflugur atvinnurekstur, vel samkeppnishæfur, og þá er kannski ástæða til að hækka skatta. Svo fer þetta líka auðvitað alltaf eftir efnahagsástandinu hverju sinni. Þurfum við að draga úr þenslunni á einkamarkaðnum? Þá kannski hækkum við skattana aðeins. Ef við þurfum að drífa það áfram þá lækkum við þá. Þetta er alltaf mat á hverjum tíma sem ég held að við séum öll meira og minna sammála um.

Ég er bara að segja að það sem truflar mig er það að við þurfum ekki að gera þetta að einhverjum eignarrétti, sem er einhvern veginn óskýr og óskiljanlegur í mínum huga. Við skulum bara ræða þetta út frá því hvernig gjaldtöku eða hvaða skatta við höfum á hverjum tíma.