Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:56]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er svo stórkostlega ánægð með þessa umræðu hér og kem bara af mikilli gleði hér í ræðustól og langar aðeins að fara yfir það sem hv. þm. Brynjar Níelsson kom inn á. Ég fagna sérstaklega hans jákvæða viðhorfi til skattahækkana, ég verð nú að byrja á því. Ég held að það sé náttúrlega alveg ljóst og öllum ljóst að við kannski sjáum þessa hluti ekki alveg með sömu augum. Mín afstaða er sú að það er katastrófa að hér sé ekki búið að tryggja auðlindaákvæði í stjórnarskrá landsins því að það er auðvitað það sem við ættum að vera búin að gera fyrir lifandis löngu. Sameign þjóðar — lítið eyríki úti í Atlantshafi sem er fullt af svo gjöfulum auðlindum í sjó, á landi, í náttúru, í vatni, í varma, við getum endalaust talið það, í hugviti, við þurfum að tryggja að arðurinn renni til innviðanna. Þess vegna er í stjórnarsáttmála t.d. talað um að öll orkuöflun fari í innlend orkuskipti. Það sem ég skil úr orðum hv. þingmanns er auðvitað að það megi ekki tryggja eignarrétt þjóðarinnar á sínum auðlindum. Og ég spyr hann: Hvað er það sem hann óttast í því? Við vitum að fiskveiðiauðlindin og auðlindagjaldið af henni hefur klofið þessa þjóð árum og áratugum saman þannig að einhver bara svona sameiginleg niðurstaða í einhverjum skattaálagningum er ekki endilega að fara að byggja sátt eða skila okkur því sem við þurfum. Þess vegna þurfum við auðlindaákvæði og við þurfum það í stjórnarskrá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)